Körfubolti

Einar Árni hættur hjá Hetti

Gunnar Gunnarsson skrifar
Einar Árni er hættur hjá Hetti.
Einar Árni er hættur hjá Hetti. Austurfrétt/Gunnar

Einar Árni Jóhannsson, annar þjálfara liðs Hattar í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, hefur ákveðið að láta af störfum.

Þetta var tilkynnt eftir leik Hattar og Vals á Egilsstöðum í kvöld. Valur vann leikinn í framlengingu sem Höttur knúði fram með frábærum fjórða leikhluta. Úrslitin þýða að Valur er kominn í undanúrslitin en tímabilinu er lokið hjá Hetti.

Einar Árni kom til félagsins sumarið 2021 til starfa við hlið Viðars Arnar Hafsteinssonar. Liðið fór upp úr fyrstu deildinni vorið 2022 og hélt sér síðan í úrvalsdeildinni í fyrsta sinn 2023 auk þess að komast í undanúrslit bikarkeppninnar. Í vor komst liðið í fyrsta sinn í úrslitakeppnina. Einar hefur að auki verið yfirþjálfari yngri flokka.

„Það er ofboðslegur missir af Einari Árna. Það var frábært að fá hann inn, hann kom með mikla reynslu og gæði inn í félagi, bæði fyrir yngri flokka og meistaraflokk. Á hans tíma hefur fjölgað í yngri flokkum og meistaraflokkurinn náð sínum besta árangri síðan við hófum þessa vegferð fyrir 13-14 árum.

Við þökkum fyrir hans framlag og vonandi náum við að fylla hans skarð,“ sagði Viðar Örn eftir leikinn í kvöld.

Hann sagði engar frekar breytingar liggja fyrir á leikmannahópi Hattar að svo stöddu. „Það eru alltaf einhverjir sem hugsa sér til hreyfings upp á skóla eða slíkt meðan aðrir eru farnir að eldast. Ég vona að við náum að halda í sem flesta því ég tel að við getum haldið áfram að taka skref fram á við með þennan kjarna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×