Agnes Björg Tryggvadóttir er sálfræðingur í áfallateymi Landspítalans þegar kemur að ofbeldi í nánu sambandi en um 150 slík mál hafa komið upp á spítalanum frá því í nóvember 2022, þegar samhæfing á verklagi við móttöku þolenda heimilisofbeldis hófst á landsvísu en verkefnið kallast „Hof“.
„Við erum að hjálpa fólki að taka ákvarðanir um hvort það ætli að vera í samböndum eða fara úr þeim. Við erum að veita áfallahjálp, við gerum greiningar ef þörf er á, við veitum meðferð, við veitum stuðning í tengslum við kærumálin og erum í rauninni bara að fylgja fólki í gegnum þennan erfiða tíma, sem það er að upplifa áföll í nánu sambandi,“ segir Agnes Björg.
Og hvernig er að vinna í svona umhverfi sem sálfræðingur?
„Það er bæði erfitt og rosalega gefandi því það eru bara forréttindi að fá að fylgja fólki í gegnum erfiðasta tíma lífsins. Auðvitað tekur það á, okkar starfsfólk þarf að hlúa vel að sér, en það er líka ofboðslega gefandi að sjá fólk ná bata í kjölfar hræðilegustu lífsreynslu sinnar og að geta haldið lífi sínu áfram.“
En ná flestir bata eftir ofbeldi í nánu sambandi eða hvernig er það?
„Já, almennt séð þá er árangur af áfallameðferð mjög góður en auðvitað getum við ekki veitt fólki meðferð, sem er enn þá í ofbeldissamböndum og það þurfa ekki allir meðferð, margir ná bata á náttúrulegan hátt en svo að sjálfsögðu þegar það er verið að vinna með áföll er hætta á að fólk hætti að nýta sér þjónustuna eins og er bara þegar forðun er hluti af vandamálinu,“ segir Agnes Björg.
En sæki fólk aftur í ofbeldissambönd, maður hefur heyrt svolítið mikið um það?
„Það er ákveðin áhætta á að verða aftur fyrir ofbeldi þegar maður hefur verið í ofbeldissambandi, sérstaklega ef ekki er búið að vinna með afleiðingar fyrra sambands,“ segir Agnes Björg, sálfræðingur í áfallateymi Landspítalans.