Innlent

Taka aftur við eignum í Grinda­vík eftir helgi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Rafmagnslaust er í Grindavík eftir að hraun rann á háspennulínumöstur sem flytja rafmagn eftir línunum til bæjarins.
Rafmagnslaust er í Grindavík eftir að hraun rann á háspennulínumöstur sem flytja rafmagn eftir línunum til bæjarins. Vísir/Vilhelm

Fasteignafélagið Þórkatla hefur ákveðið, í samráði við Almannavarnir og Lögreglustjórann á Suðurnesjum, að halda áfram móttöku fasteigna í Grindavík strax á mánudag. Ákvörðunin er þó með þeim fyrirvara að aðstæður í bænum og við eldstöðvarnar breytist ekki til hins verra.

Örn Viðar Skúlason, framkvæmdastjóri Þórkötlu segir ákvörðunina tekna í fullu samráði við viðbragðsaðila.

„Við gerum þetta þó ekki síst vegna þess að við finnum að margir seljendur eru uggandi gagnvart frekari frestun á afhendingu eignanna. Seinkun getur leitt til tafa á uppgjöri afsalsgreiðslna og margir eru búnir að gera ráð fyrir þessum greiðslum í sínu bókhaldi.“

Móttaka eignanna fari fram á sérstökum skilafundi og munu allt að sex starfsmenn á vegum Þórkötlu annast þetta verkefni næstu vikurnar. Örn segir félagið munu senda út tölvupóst til þeirra sem áttu bókaða afhendingu í þessari og næstu viku, með slóð þar sem fólk geti bókað tíma fyrir afhendingu. Félagið hafi einnig tekið vel í beiðnir fólks sem óskað hafi eftir seinkun á afhendingu eigna sinna, sem getur verið af ýmsum ástæðum.

Aðkoma að Grindavík er sem stendur eingöngu um Suðustrandarveg og fólk er hvatt til að kynna sér opnar aðkomuleiðir að bænum. Þá er bæði starfsmönnum Þórkötlu og almenningi uppálagt að fylgja ávallt fyrirmælum Almannavarna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×