Skoðun

Óskað eftir for­seta sem færir ungu fólki völd

Valgerður Eyja Eyþórsdóttir skrifar

Á morgun 1. júní verður kosið til embættis forseta Íslands, þar sem við munum kjósa sjöunda forseta lýðveldisins. Í þessu samhengi skiptir máli að við unga fólkið skilum okkur á kjörstað og nýtum lýðræðislegan kosningarétt okkar. Við sem erum að kjósa í fyrsta skiptið fáum loksins að nýta kosningaréttinn, sem er mikið meira en bara réttur. Hann er tækifæri okkar til að láta rödd okkar heyrast og hafa áhrif á samfélagið.

Minni kosningaþátttaka ungs fólks

Kosningaþátttaka okkar unga fólksins hefur því miður verið almennt minni en hjá öðrum aldurshópum sem skapar lýðræðishalla á milli kynslóða. Við höfum síður verið að skila okkur á kjörstað en ég á bágt með að trúa að við viljum vera sú kynslóð sem kýs ekki eða tekur ekki lýðræðislegan þátt til að hafa áhrif á okkar dýrmæta samfélag. Það er því áhyggjuefni að ungt fólk sé ólíklegra til þess að skila sér ekki á kjörstað sem gerir það að verkum að bæði samfélagsstöðu þeirra og lýðræði er ógnað. Landssamband ungmennafélaga (LUF) hefur lengi, í samstarfi við Samband íslenskra framhaldsskólanema (SÍF) staðið fyrir verkefninu og átakinu #ÉgKýs en í því felst að efla lýðræðisvitund hjá ungu fólki, hvetja þau til að taka upplýsta ákvörðun, mæta á kjörstað og kjósa til þess að koma í veg fyrir að alvarlegur lýðræðishalli myndist á milli kynslóða.

Rödd okkar unga fólksins verður að heyrast

LUF óskar hér með formlega eftir forseta sem færir ungu fólki völd. Ungt fólk leitar eftir forseta sem horfir til samstarfs og samtals við ungt fólk. Það er ungu fólki nauðsynlegt að raddir þeirra fái að heyrast og að sá sem mun taka við embætti forseta Íslands láti sig hagsmuni komandi kynslóða varða og sé sameiningartákn allra. Lýðræði krefst raunverulegs samráðs við ungt fólk og það er eðlileg krafa að hagsmunir ungs fólks endurspeglist í lýðræðislegum kosningum.

Kynnum okkur frambjóðendur og mætum á kjörstað

Það er gríðarlega mikilvægt að ungt fólk taki upplýsta ákvörðun og mæti á kjörstað. Það skiptir máli að við nýtum þá rödd sem við höfum, okkar kosningarétt og kjósum. Við þurfum að mæta og kjósa til að hafa áhrif. Látum tækifærið ekki framhjá okkur fara, hvert atkvæði skiptir máli.

Ekki sitja heima á morgun, skellum okkur frekar í fínu fötin, tökum þátt í lýðræðinu og höfum áhrif!

Höfundur er lýðræðisfulltrúi Landssambands ungmennafélaga og  lýðræðis- og samskiptafulltrúi Sambands íslenskra framhaldsskólanema.




Skoðun

Sjá meira


×