Fótbolti

Orri Steinn á lista með verðandi fram­herja Real Madríd

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Saman á lista þó Brasilíumaðurinn sé töluvert veðmætari.
Saman á lista þó Brasilíumaðurinn sé töluvert veðmætari. Lars Ronbog/Alastair Grant

Svissneska tölfræðifyrirtækið CIES hefur birt lista yfir verðmætustu framherja heims sem eru yngri en 21 árs og spila ekki í neinum af sjö bestu deildum Evrópu. Endrick, verðandi leikmaður Real Madríd, trónir á toppi listans en Orri Steinn Óskarsson er í 5. sæti.

CIES er rannsóknarhópur sem tekur saman ýmsa tölfræði og aðra hluti tengda fótbolta. Meðal þess er að skoða verðmætustu leikmenn Evrópu og jafnvel verðmætustu leikmennina undir 21 árs sem spila ekki í stærstu deildum álfunnar.

Eftir að hafa farið yfir markverði, bakverði, miðverði, miðjumenn og vængmenn var röðin komin að framherjum. Þar var landsliðsframherjinn Orri Steinn í 5. sæti en hann spilar með danska stórliðinu FC Kaupmannahöfn.

Orri Steinn var inn og út úr liði FCK framan af leiktíð en nýtti tækifærið þegar það gafst undir lok leiktíðar. Alls skoraði hann 15 mörk í öllum keppnum ásamt því að gefa 8 stoðsendingar. Talið er að hann fái stórt hlutverk í liði FCK á næstu leiktíð.

Hann var eins og áður sagði í 5. sæti lista CIES en Orri Steinn er metinn á 15,2 milljónir evra eða tæplega 2,3 milljarða íslenskra króna.

Hinn 17 ára gamli Endrick toppar listann en hann er metinn á 91,6 milljón evra eða nærri 14 milljarða íslenskra króna. Hann gengur til liðs við Spánar- og Evrópumeistara Real Madríd síðar í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×