Sport

Dæmdur í lífs­tíðar­bann: Veðjaði meðal annars á eigin leiki

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Tucupita Marcano hefur kastað sínum síðasta hafnabolta í MLB-deildinni.
Tucupita Marcano hefur kastað sínum síðasta hafnabolta í MLB-deildinni. Chris Coduto/Getty Images

Hafnaboltakappinn Tucupita Marcano mun ekki spila í MLB-deildinni í hafnabolta svo lengi sem hann lifir en hann var í dag dæmdur í lífstíðarbann fyrir að veðja á hundruði leikja á meðan hann spilaði í deildinni. Veðjaði hann meðal annars leiki Pittsburgh Pirates þegar hann spilaði með liðinu á síðustu leiktíð.

Í yfirlýsingu MLB-deildarinnar segir að Marcano hafi veðjað alls 387 sinnum fyrir meira en 150 þúsund Bandaríkjadali eða rúmlega 20 milljónir íslenskra króna. Veðmálin áttu sér stað í október 2022 og frá júlí til nóvember á síðasta ári. 

Hinn 24 ára gamli Marcano virtist ekki fela það að hann væri að veðja á deildina sem hann spilaði í eða þá leiki sem hann tók þátt í þar sem ekki var um ólöglega veðmálastarfsemi að ræða.

Samkvæmt ESPN er meira en öld síðan MLB-deildin dæmdi leikmann sem enn var að spila í deildinni í lífstíðarbann fyrir veðmál.

Rob Manfred, framkvæmdastjóri deildarinnar, sagði meðal annars í yfirlýsingu sinni vegna málsins að það skipti deildina öllu máli að verja heilindi hennar. Þar með sé ekki hægt að leyfa leikmönnum að veðja á leiki í deildinni og hvað þá eigin leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×