Erlent

Lést á leið til Normandí 80 árum eftir D-dag

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Fólk kemur víðs vegar saman í dag til að minnast D-dagsins sem var fyrir 80 árum síðan. Myndin tengist ekki fréttinni með beinum hætti.
Fólk kemur víðs vegar saman í dag til að minnast D-dagsins sem var fyrir 80 árum síðan. Myndin tengist ekki fréttinni með beinum hætti. Getty/Carl Court

Robert Persichitti, fyrrverandi sjóliði bandaríska hersins, lést á leið sinni á viðburð í Normandí í Frakklandi sem fer fram í dag. Viðburðurinn markar 80 ár frá innrás bandamanna á ströndinni í Normandí. 

Persichitti var á leið sinni til Normandí með skipi þegar heilsu hans hrakaði skyndilega þann 30. maí en hann var í kjölfarið fluttur á spítala í Þýskalandi þar sem hann lést daginn eftir 102 ára að aldri. Persichitti barðist fyrir hönd Bandaríkjamanna gegn Japönum í Kyrrahafi í seinni heimsstyrjöldinni. Fréttastofa BBC greinir frá.

Var spenntur fyrir ferðalaginu

Í dag safnast fyrrum hermenn bandamanna saman víðs vegar til að minnast þess að 156 þúsund hermenn gengu á land í Frakklandi sjötta júní árið 1944. Vísað er til dagsins sem D-dags en hann markar upphaf ósigurs Þýskalands og Öxulveldanna í seinni heimstyrjöldinni. 

Honor Flight, samtök fyrrum hermanna, tilkynnti um andlát Persichitti í dag en samtökin tóku fram að um merkan og auðmjúkan mann hafi verið að ræða. „Hann þjónaði þjóð sinni af hugrekki og án þess að hika,“  segir í tilkynningunni.

Persichitti sagði í samtali við fréttamiðil í Rochester í Bandaríkjunum áður en hann lagði í ferðina sem myndi verða hans síðasta að hann væri mjög spenntur fyrir ferðalaginu og að hjartalæknir hans hafði hvatt hann til að ferðast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×