Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Veðurstofu Íslands. Áfram er virkni í einum gíg og hraun hefur undanfarna daga runnið að mestu til norðvesturs og þykknað við Sýlingarfell ásamt því að renna mjög hægfara norður fyrir Sýlingarfell og til vesturs.
Farið var í að loka skarðinu í varnargarðinum við Grindavíkurveg þegar ljóst var að þangað stefndi hraunið. Hraun hefur einnig leitað niður með garðinum og er mjög þykkt og hrynur úr því yfir garðinn á kafla. Eftir hádegi hefur þó dregið úr hraða hraunsins.
Framendi hraunbreiðunnar hefur nú náð í um átta hundruð metra fjarlægð frá heitavatnslögnum og færist hægt í áttina að þeim. Veðurstofan segist munu fylgjast vel með aðstæðum og að ekki sé útilokað að annað áhlaup geti átt sér stað á næstu dögum.