Innlent

Auka fram­lag Ís­lands til UN­RWA um hundrað milljónir

Lovísa Arnardóttir skrifar
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, heilsar Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, við upphaf ráðstefnunnar í dag.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, heilsar Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, við upphaf ráðstefnunnar í dag. Mynd/Stjórnarráðið

Ísland eykur framlag sitt til Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) um hundrað milljónir. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, tilkynnti um framlagið á ráðstefnu sem hann sótti fyrir hönd forsætisráðherra í Jórdaníu. Samanlagt munu stjórnvöld þá hafa lagt til UNRWA 290 milljónir á þessu ári.

Jórdaníukonungur, forseti Egyptalands og aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna buðu til ráðstefnunnar og hana sækja þjóðarleiðtogar og ráðamenn víða að.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir af þessu tilefni, í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu, að íslensk stjórnvöld muni halda áfram að leggja sitt af mörkum til mannúðaraðstoðar, og friðar- og enduruppbyggingar á svæðinu. Hún segir jafnframt mikilvægt að vopnahléi verði komið á hið fyrsta, svo hægt sé að hlúa að þjáðum og hungruðum á Gasa, og að gíslum sem enn eru í haldi Hamas verði sleppt.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, ásamt Philippe Lazzarini framkvæmdastjóra Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA).Mynd/Stjórnarráðið

„Við hvetjum til þess að öryggisályktun gærdagsins verði innleidd strax – þessari hringrás ofbeldis verður að linna,“ segir Þórdís Kolbrún.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra tekur í sama streng.

„Börn geta aldrei borið ábyrgð á stríðsrekstri annarra og það er óásættanlegt að þau gjaldi fyrir með lífi sínu. Ísland mun nú, líkt og áður fyrr, beita sér fyrir vopnahléi, lausn gísla og varanlegum friði á grundvelli tveggja ríkja lausnarinnar.“

Friðaráætlun vekur von

Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segir að á ráðstefnunni í Jórdaníu hafi staða mannúðarmála, nauðsyn aukinnar mannúðaraðstoðar og fyrstu skref að enduruppbyggingu Gaza verið í brennidepli.

„Friðaráætlun Bandaríkjaforseta sem öryggisráðið ályktaði um í gærkvöldi hefur vakið vonir um að vopnahlé komist á og hafa leiðtogar víða um heim hvatt til þess að stríðandi fylkingar setjist að samningaborðinu.“

Fulltrúar Hamas-samtakanna og Ísraela hafa samþykkt friðaráætlunina. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna lagði blessun sína yfir hana í gær.

Joe Biden Bandaríkjaforseti kynnti um áætlunina í lok síðasta mánaðar. Hún felur meðal annars í sér að Ísraelar dragi herlið sitt frá Gasa og að gíslum Hamas verði skilað í skiptum fyrir palestínska fanga í ísraelskum fangelsum.


Tengdar fréttir

Öryggis­ráðið styður friðar­til­lögu Biden

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti í dag að styðja við þriggja fasa vopnahlésáætlun á milli Hamas og Ísrael á Gasa. Áætlunin var lögð fram af forseta Bandaríkjanna, Joe Biden, við lok síðasta mánaðar.Fjórtán af fimmtán meðlimum ráðsins samþykktu að styðja tillöguna. Rússar sátu hjá. 

Full­yrða að gíslar hafi fundist í haldi blaða­manns

Ísraelsher heldur því fram að þrír gíslar sem voru frelsaðir úr haldi í hernaðaraðgerð á Gasa um helgina hafi verið í haldi blaðamanns sem starfaði fyrir katörsku sjónvarpsstöðina al-Jazeera. Fjölmiðillinn segir ásakanirnar stoðlausar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×