Skoðun

Mál­svari minksins

Lárus Karl Arnbjarnarson skrifar

Nýverið ákvað matvælaráðherra að leyfa veiðar á langreyðum til eins árs, dýraverndunarsinnum til mikillar gremju enda eru langreyðar eru taldar fallegar og skaðlausar skepnur. Þökk sé þessum eiginleikum flykkjast dýraverndunarsinnar að langreyðum og öðrum hvalategundum, ólmir í að verja þær frá vondu hvalveiðimönnunum.

Því miður eru fæstar dýrategundir svo heppnar. Hugmyndir um dýravelferð virðast helst byggjast á hversu krúttlegt, tignarlegt eða saklaust dýrið sé. Auðvelt er að fá fólk til að tárast yfir myndum af illa förnum kúm í verksmiðjufjósi eða reiðast yfir myndum af skælbrosandi veiðimönnum í Afríku, standandi yfir nýfelldri bráð.

Hvað þá með þær dýrategundir sem ekki teljast krúttlegar, tignarlegar eða saklausar? Til er spendýrategund hér á landi, sem mögulega væri hægt að kalla krúttlega… þegar hún er ekki með hálfdauða andarunga í kjaftinum. Hún er þó hvorki tignarleg né saklaus og er veidd með grimmilegri aðferðum en nokkurt annað villt spendýr í íslenskri náttúru. Það er minkurinn.

Minkurinn er vissulega aðflutt tegund sem getur valdið umhverfi sínu skaða. Jafnframt eru þær aðferðir sem notaðar eru við minkaveiðar nauðsynlegar til að halda stofninum niðri, þó grimmlegar séu. Slík rök virðast þó almennt ekki skipta dýraverndunarsinna mái enda er alltaf ljótt þegar krúttleg, tignarleg eða sakleysisleg dýr eru drepin. Í tilfelli minksins eru dýraverndunarsinnar þó þöglir sem gröfin. Myndir af dauðum langreyðum vekja óhug og sorg, myndböndum af hundum að rífa minka á hol er mætt af kæruleysi. Minkurinn, eins óþolandi og hann er, ætti að eiga sér málsvara. Í millitíðinni munu orð Georges Orwell úr bókinni Dýrabær (1945): ,,Öll dýr eru jöfn en sum dýr eru jafnari en önnur,” eiga vel við um baráttu dýraverndunarsinna.

Höfundur er stjórnmálafræðinemi.




Skoðun

Sjá meira


×