Innlent

Stofna starfs­hóp vegna fjölda bruna í tengslum við þak­pappa­lagningu

Árni Sæberg skrifar
Iðnaðarmaður leggur þakpappa með þar til gerðum brennara. Myndin er úr safni.
Iðnaðarmaður leggur þakpappa með þar til gerðum brennara. Myndin er úr safni. Nikola Stojadinovic/Getty

Í ljósi fjölda eldsvoða í tengslum við þakframkvæmdir á síðustu árum hefur HMS hafið samstarfsverkefni um gerð verklagsleiðbeininga fyrir vinnu með eld í þakframkvæmdum.Myndaður hefur verið starfshópur til að vinna að gerð svokallaðs Rb-blaðs um verklag fyrir lagningu þakpappa og þær öryggisráðstafanir sem þarf að gera við slíka vinnu.

Þetta segir í tilkynningu á vef HMS. Undanfarin ár hafa reglulega verið fluttar af því fréttir að kviknað hafi í húsum þegar verið var að leggja þakpappa. Til þess að leggja þakpappa þarf að bræða hann saman á köntum með þar til gerðum gaslampa.

Nú síðast varð stjórtjón á Kringlunni eftir að kviknaði í þaki hennar út frá slíkum gaslampa. Tíu verslanir hlutu altjón í brunanum og loka þurfti verslunarmiðstöðinni tímabundið.

Í tilkynningu HMS segir að starfshópurinn samanstandi nú af sérfræðingum á sviði brunavarna og starfsumhverfis mannvirkjagerðar hjá HMS og sérfræðingum frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. 

Aðrir tengdir viðfangsefninu, til dæmis fulltrúar verktaka og brunaverkfræðinga, muni bætast við og mynda öflugan hóp til að vinna leiðbeiningar fyrir framkvæmdir sem þessar.

Í upphafi muni hópurinn vinna að gerð Rb-reynslublaðs, sem er tækniblað fyrir byggingariðnað, um verklag fyrir lagningu þakpappa og nauðsynlegar öryggisráðstafanir við slíka vinnu. Í vinnunni muni hópurinn einnig skoða hvaða leiðir eru vænlegastar til árangurs varðandi fræðslu um eldvarnir í mannvirkjagerð og greina hvar þarf að styðja við iðnaðinn. 

Hópurinn muni nýta stórt bakland sitt til þess að fræðsla og upplýsingar nái til sem flestra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×