Körfubolti

Grind­víkingar búnir að finna sér nýjan banda­rískan bak­vörð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Devon Thomas spilar með Grindavík í Smáranum á næstu leiktíð.
Devon Thomas spilar með Grindavík í Smáranum á næstu leiktíð. Körfuknattleiksdeild Grindavíkur

Grindvíkingar hafa fundið eftirmann Dedrick Basile því félagið segir í dag frá samningi sínum við bandaríska leikstjórnandann Devon Thomas.

Dedrick Basile hefur verið orðaður við Tindastól og verður væntanlega ekki áfram í Grindavíkurliðinu. Grindavík er að fá öflugan leikmann í staðinn.

Devon spilaði með Texas Tech Red Raiders háskólaboltanum í NCAA. Thomas er 29 ára gamall og 183 sentímetra hár leikstjórnandi. Hann hefur spilað sem atvinnumaður í Evrópu frá árinu 2017.

„Hann kemur með ótrúlega hæfileika, seiglu og reynslu sem mun án efa styrkja liðið okkar,“ segir í frétt á miðlum Grindvíkinga.

Devon var á síðasta tímabili hjá Nantes í frönsku Pro-B deildinni þar sem hann skoraði að meðaltali 13,3 stig, tók 2 fráköst og gaf 3,7 stoðsendingar í leik.

Hann hefur einnig spilað í mörgum sterkum deildum, þar á meðal í Króatíu, Þýskalandi og Finnlandi þar sem hann skilaði 16,5 stigum, 4,5 fráköst og gaf 4,7 stoðsendingar sem leikmaður Lahti Basketball tímabilið 2022-23.

„Devon er þekktur fyrir hátt orkustig og góðan varnarleik ásamt því að vera mjög sterkur sóknarlega,“ segir í frétt á miðlum Grindvíkinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×