Innlent

Ríkis­stjórnin hafi séð um það sjálf að stúta eigin málum

Rafn Ágúst Ragnarsson og Vésteinn Örn Pétursson skrifa
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir ríkisstjórnarliða hafi veitt sér verulega samkeppni í stjórnarandstöðu.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir ríkisstjórnarliða hafi veitt sér verulega samkeppni í stjórnarandstöðu. Vísir/Arnar

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar segir stjórnarandstöðuna hafa fengið verulega samkeppni í stjórnarandstöðu frá þingliði ríkisstjórnarflokkanna. Hún segir ljóst að ríkisstjórnin hefði ekki getað klárað mörg mál án aðstoðar stjórnarandstöðunnar.

„Við erum með ríkisstjórn sem fór og endurnýjaði heitin. Það átti að fjalla um orkumál, það er ekkert að frétta þar. Það átti að fjalla um efnahagsmál af meiri festu. Við erum með meiri verðbólgu, við erum með hæstu stýrivexti fyrir utan Rússland og Úkraínu í Evrópu,“ segir Þorgerður.

Hún bendir á að ríkisstjórnin hafi ekki náð samkomulagi um áætlun í samgöngumálum sem hún telur vera vott um vanhæfni hennar.

„Gott dæmi um þetta getuleysi er að aftur kemur ríkisstjórnin sér ekki saman um að afgreiða samgönguáætlun. Áætlun sem snýr að innviðum, flugvöllum, höfnum, vegum, almenningssamgöngum og ríkisstjórn sem getur ekki klárað samgönguáætlun, hún þarf bara að fara,“ segir Þorgerður Katrín.

Formenn flokka náðu samkomulagi í gærkvöldi um afgreiðslu mála fyrir frestun þingfunda.

„Við skulum bara sjá til. Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin hefði ekki getað klárað ákveðin mál nema bara með stuðningi stjórnarandstöðu,“ segir Þorgerður Katrín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×