Innlent

Ferða­maður sofnaði undir stýri og ók á rútu

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Miklar skemmdir eru á báðum bílum.
Miklar skemmdir eru á báðum bílum. Börkur Hrólfsson

Börkur Hrólfsson rútubílstjóri var á leið til Keflavíkur um tvöleytið eftir hádegi í gær, þegar sofandi ökumaður ók í veg fyrir hann rétt hjá álverinu í Straumsvík. Engin meiriháttar slys urðu á fólki, en Börkur segir algjörri heppni, loftpúðum og bílbeltum að þakka að ekki hafi farið verr. Hann segir of algengt að ósofnir ferðamenn ætli sér að aka langar vegalengdir eftir langt ferðalag til landsins.

Börkur var einn í sprinter-bifreið sinni með kerru aftan í. „Rétt áður en maður kemur að álverinu er svona framhjáhlaup, þar sem eru framkvæmdir. Hraðinn er tekinn niður í 50. Það kemur þarna hlykkur á veginn út af þessu framhjáhlaupi vegna framkvæmdanna, og það eru svona steinklumpar við þetta til að stýra umferðinni í gegn,“ segir Börkur.

Ökumaðurinn sofandi en farþegar æpandi

Börkur var að aka í gegnum framkvæmdasvæðið, þegar hann sér að bíllinn á móti hélt beinni stefnu, í stað þess að beygja í hlykkinn. Hann stefndi því beint framan á bíl Barkar. „Ég reyndi eins og ég gat að víkja, en ég gat ekki vikið alveg út af þessum steinum. en af því að ég vék eins langt og ég gat, slapp ég við að fá hann beint framan á mig,“ segir Börkur.

„Þá kom bíllinn inn í hliðina um miðjan bílinn hjá mér, fór aftur með honum, lenti á afturhjólunum og kastaði sprinternum mínum á steinklumpana til hliðar og fór svo utan í kerruna og tætti hana. Hásingan brotnaði undan og kerran fór í small og allt,“ segir Börkur.

Börkur segir mikla lukku að enginn hafi slasast illa.Börkur Hrólfsson

Hann segist hafa tekið eftir því þegar á þessu stóð, að bílstjórinn, maður sem virtist á áttræðisaldri, hafi ekki sýnt nein viðbrögð. Börkur hafi legið á flautunni. Farþeginn hafi hins vegar baðað út höndum og sýnt mikil viðbrögð. Fjórir farþegar hafi verið í bílnum.

Mikil hætta stafi af ósofnum ferðamönnum

Þegar Börkur hafði svo spurt fólkið hvort þau væru slösuð, og fengið þau svör að svo væri ekki, hefði mikil reiði blossað upp í honum. Hann hafi spurt „Hver andskotinn á þetta að þýða, varst þú sofandi?“ Hann hafi fengið svarið „já ég hlýt að hafa dottað.“

Kerran „fór í small“Börkur Hrólfsson

Ökumaðurinn hafi svo sagt Berki að hann hefði komið frá Bandaríkjunum snemma um morguninn, en hafi ekki fengið hótelherbergi fyrr en um kaffileytið. Hann hafi því ákveðið að rúnta um Reykjanesið allan daginn, þangað til hann gæti farið á hótelið. Hann hefði ekkert sofið í flugvélinni. „Guð einn má vita hvað hann hefur vakað lengi áður en hann fór í þetta næturflug til Íslands,“ segir Börkur.

Börkur segir að um þetta sé mikið rætt meðal atvinnubílstjóra, að ósofnir ferðamenn séu víða á vegum landsins. „Þetta erum við að sjá hvað eftir annað, og það er áberandi að þetta eru oft Asíubúar sem vanmeta vegalengdir og eru ósofnir, eða fólk sem er að koma frá Ameríku og er að koma hingað sex á morgnana. Sefur ekki í vélinni og annað slíkt,“ segir Börkur.


Tengdar fréttir

Sofnaði eftir fjórtán mínútna akstur og olli banaslysi

Erlend kona á ferð um landið lést í alvarlegu umferðarslysi á Snæfellsnesvegi norðan Hítarár þegar þegar annar erlendur ferðamaður sem ók Nissan-bifreið úr gagnstæðri átt sofnaði við akstur, ók yfir á rangan vegahelming og framan á húsbílinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×