Innlent

Líkur á kvikuhlaupi eða eld­gosi á næstu vikum

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Mynd úr safni af eldgosi við Sundhnúksgíg.
Mynd úr safni af eldgosi við Sundhnúksgíg. Vísir/Vilhelm

Landris undir Svartsengi hefur verið stöðugt síðustu daga og kvikuflæði heldur þar áfram. Líkur eru á öðru kvikuhlaupi eða eldgosi á svæðinu á næstu vikum eða mánuðum.

Þetta kemur fram í uppfærðri frétt á vef Veðurstofunnar. Þar segir að tuttugu jarðskjálftar hafi mælst yfir kvikuganginum, sá stærsti 1,3 að stærð vestan við Grindavíkurbæ. Svipuð virkni hafi sést síðustu tvær vikur.

Fram kemur að rúmlega 260 jarðskjálftar hafi mælst á Reykjanesskaga í liðinni viku. Um sextíu skjálftar hafi mælst í Lambafelli í Þrengslum og um tugur í Brennisteinsfjöllum, flestir umhverfis Kleifarvatn. 

Kvikuinnstreymi meira en fyrir síðasta gos

Þá sýni GPS aflögunargögn að landris undir Svartsengi haldi áfram með svipuðum hraða og síðustu daga.  Líkanreikningar byggðir á aflögunargögnum bendi áfram til að kvikuinnstreymi sé meira nú en fyrir eldgosið 29. maí. Þessi gögn bendi áfram til að annað kvikuhlaup og/eða eldgos sé líklegt á næstu vikum eða mánuðum.

Hættumat hefur verið uppfært, og gildir að öllu óbreyttu til 16. júlí. Það er að mestu óbreytt nema að á Svæði 1, Svartsengi, er minni hætta vegna hraunflæðis. Hætta færist því niður úr því að vera töluverð, eða appelsínugul, í nokkra, eða gula. Hætta vegna hraunflæðis er einnig metin minni á Svæði 6.

Uppfært hættumatskort.Veðurstofa Íslands



Fleiri fréttir

Sjá meira


×