Innlent

Tekjur mestar í Vest­manna­eyjum og minnstar í Tjör­nes­hreppi

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Heildartekjur einstaklinga á Íslandi voru rúmar 9,2 milljónir króna að meðaltali árið 2023, eða um 770 þúsund krónur á mánuði. Miðgildið var 7,6 milljónir króna á ári, sem þýðir að helmingur einstaklinga var með laun yfir 636 þúsundum króna á mánuði.
Heildartekjur einstaklinga á Íslandi voru rúmar 9,2 milljónir króna að meðaltali árið 2023, eða um 770 þúsund krónur á mánuði. Miðgildið var 7,6 milljónir króna á ári, sem þýðir að helmingur einstaklinga var með laun yfir 636 þúsundum króna á mánuði. Vísir/Vilhelm

Heildartekjur einstaklinga á Íslandi voru rúmar 9,2 milljónir króna að meðaltali árið 2023, eða um 770 þúsund krónur á mánuði. Það er rúm 10 prósent hækkun frá fyrra ári. Sé horft til verðlagsleiðréttingar er raunhækkunin um 1,3 prósent. Meðaltal heildarteknanna var hæst í Vestmannaeyjum, 13,9 milljónir, en lægst í Tjörneshreppi, 6,5 milljónir.

Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar.

Þar segir að miðgildi heildartekna hafi verið 7,6 milljónir króna á ári, sem samsvari því að helmingur einstaklinga hafi verið með heildartekjur yfir 636 þúsund krónum á mánuði. Hækkun miðgildis heildartekna hafi verið 11,3 prósent, en sé horft til verðlagsleiðréttingar hafi hækkunin verið 2,4 prósent.

Meðaltal atvinnutekna var um 6,4 milljónir, meðaltal fjármagnstekna rétt tæpar 1,0 milljón króna og meðaltal annarra tekna um 1,9 milljónir. Heildartekjur eru samtala atvinnutekna, fjármagnstekna og annarra tekna.

Mestar tekjur í Eyjum og lægstar í Tjörneshreppi

Meðaltal heildarteknanna var hæst í Vestmannaeyjum, þar sem þær voru 13,9 milljónir að meðaltali árið 2023. Næstmestar voru tekjurnar á Seltjarnarnesi, þar sem meðaltalið var 12,6 milljónir, og þar á eftir kom Garðabær, þar sem meðaltalið var 11,5 milljónir.

Tekjurnar voru minnstar að meðaltali í Tjörneshreppi, þar sem þær voru 6,48 milljónir, en Skagabyggð fylgdi þar fast á eftir með 6,52 milljónir. Í Dalabyggð voru tekjur að meðaltali 6,9 milljónir árið 2023.

Heildartekjur í Reykjavík voru að meðaltali 9,13 milljónir árið 2023, rétt undir meðaltalinu á landsvísu.

Mestar tekjur hjá 50 til 54 ára

Við samanburð á meðaltekjum eftir aldurshópum sést að heildartekjur ársins 2023 voru lægstar í aldurshópnum 16 til 19 ára eða um 180 þúsund krónur á mánuði. Rétt er að benda á að hér er um að ræða einstaklingstekjur og margir í þessum aldursflokki eru í námi. 

Heildartekjur voru hæstar fyrir aldurshópinn 50 til 54 ára eða að jafnaði 1.019 þúsund krónur á mánuði. Meðalheildartekjur 67 ára og eldri voru 715 þúsund krónur.

Til atvinnutekna teljast allar launatekjur og aðrar starfstengdar greiðslur. Atvinnutekjur eru stærsti hluti heildartekna hjá flestum aldurshópum, en flokkurinn „aðrar tekjur“ vega mest hjá aldurshópnum 67 ára og eldri.

Til annarra tekna teljast meðal annars atvinnuleysisbætur, félagsleg aðstoð og lífeyris- og bótagreiðslur.

Sjá nánar hjá Hagstofunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×