Fjallað verður nánar um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Landsþing Repúblikanaflokksins er hafið og búist er við því að Donald Trump kynni varaforsetaefni sitt í kvöld. Ýmsir greinendur telja að banatilræðið um helgina muni styrkja stöðu hans í aðdraganda kosninga. Við ræðum við stjórnmálafræðing um málið í beinni.
Hópur bifhjólamanna safnast í kvöld saman á Korputorgi til að mótmæla slæmum skilyrðum fyrir bifhjólaakstur á vegum landsins. Þau krefjast þess jafnframt að einhver verði látinn sæta ábyrgð á mistökum við vegagerð sem leiddu til banaslyss tveggja bifhjólamanna á Kjalarnesi árið 2020. Við verðum í beinni þaðan og ræðum við mótmælendur.
Þá fer fréttamaður á stúfana og ræðir við borgarbúa sem nýttu sólargeisla dagsins og við verðum í beinni með veðurfræðingi sem lofaði góðu sumri. Auk þess kíkjum við á einn helsta stóðhest landsins sem á yfir níu hundruð afkvæmi og í Sportpakkanum hittum við Ólympíufara sem stefnir á að komast í úrslit.