Sigdalurinn sem myndaðist í Grindavík í nóvember þykir einstakur á heimsmælikvarða. Í raun er ekki um einn sigdal að ræða heldur tvo sem eru aðskildir með rishrygg á fimm kílómetra breiðu aflögunarsvæði.
Þetta kemur fram í fjölþjóðlegri rannsókn um ástandið við Grindavík sem var birt í virtu tímariti sem gefið er út af Bandaríska jarðeðlisfræðifélaginu. Aðalhöfundur greinarinnar Gregory De Pascale, dósent í jarðfræði við Háskóla Íslands, segir það tímabært að þróa skýrar reglur og lög til að takmarka hættuna sem stafar af misgengjum og sprungum.
Þurfi að fylgja betur eftir reglugerðum
„Það eru byggingarreglugerðir sem vísa til þess að það eigi ekki að staðsetja hús yfir sprungu. Að hús megi ekki þvera sprungu og það þarf eftilvill að fylgja betur eftir svona reglugerðum og vinna meira að því að gá að svona sprungum en það er ekki alltaf auðvelt að finna þessar sprungur,“ segir Halldór Geirsson, dósent í jarðskorpuaflögun við Háskóla Íslands.
Halldór er einn þeirra sem komu að rannsókninni en hann bætir við að misgengið í Grindavík hafi verið þekkt áður en sigdalurinn myndaðist á síðasta ári. Hann segir það mikilvægt að kortleggja misgengi á landinu svo hægt sé að koma í veg fyrir að byggt sé við virkar sprungur.
Lærum af öllu saman
Í rannsókninni kemur fram að sigdalurinn í Grindavík gefi mikilvæga innsýn í það þegar gliðnun hefst á úthafshryggjum og er bent á að eðli málsins samkvæmt eru úthafshryggir vanalega á hafsbotni. Á Reykjanesi kemur þó einn stærsti þeirra á land, Reykjaneshryggurinn.
„Það eru margir sigdalir á heimsvísu og það sem er kannski einstakt við þennan sigdal er hversu vel við sáum hvernig hann myndaðist. Þessar miklu sprunguhreyfingar verða bara í rauninni á nokkrum klukkutímum.
Ég held að það sé nú bara best að við lærum af öllu saman og horfum til framtíðar hvernig við viljum þróa byggðaskipulagið hjá okkur.“