Fótbolti

Eyja­menn skoruðu þrjú mörk á fjórum mínútum

Siggeir Ævarsson skrifar
Það er glatt á hjalla hjá Eyjamönnum þessa dagana
Það er glatt á hjalla hjá Eyjamönnum þessa dagana Mynd/Alexander Hugi

Eyjamenn gerðu frábæra ferð í Grafarvoginn í kvöld og nældu sér í þrjú dýrmæt stig í toppbaráttunni í Lengjudeild karla þegar liðið lagði Fjölni 1-5.

Bjarki Björn Gunnarsson kom gestunum yfir á 13. mínútu en undir lok fyrri hálfleiks kom ótrúlegur fjögurra mínútna kafli þar sem Eyjamenn skoruðu þrjú mörk, tvö þeirra í uppbótartíma, og staðan 0-4 í hálfleik.

Oliver Heiðarsson skoraði svo sitt annað mark í leiknum á 56. mínútu og gerði þá endanlega út um leikinn. Hann er þá orðinn markahæstur í deildinni með tólf mörk, en Máni Austmann Hilmarsson skoraði eina mark Fjölnis undir lokin og er næst markahæstur með ellefu mörk.

Lokatölur í Grafarvoginum 1-5 og ÍBV aðeins einu stigi á eftir toppliði Fjölnis og hafa nú unnið fjóra leiki í röð. Fjölnismenn hafa aftur á móti ekki landað sigri síðan 18. júlí þegar liðið lagði Grindavík 5-1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×