Innlent

Her­sveitir, her­skip og flug­vélar á sveimi við Ís­land næstu daga

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Tvíhliða varnaræfingin Norður-Víkingur fer fram annað hvert ár, en þessi mynd er frá æfingunni hér á landi árið 2022.
Tvíhliða varnaræfingin Norður-Víkingur fer fram annað hvert ár, en þessi mynd er frá æfingunni hér á landi árið 2022. Vilhelm Gunnarsson

Varnaræfingin Norður-Víkingur, tvíhliða varnaræfing Íslands og Bandaríkjanna, hófst í gær og stendur yfir til þriðja september. Æfingin fer fram hér á landi og á hafsvæðinu umhverfis Ísland en auk Íslands og Bandaríkjanna taka þátt í æfingunni bandalagsríkin Danmörk, Frakkland, Holland, Noregur, Pólland og Portúgal. Þá tekur hluti fastaflota Atlantshafsbandalagsins þátt í æfingunni.

Tilgangur æfingarinnar er að „æfa varnir mikilvægra mannvirkja, varnir sjóleiða umhverfis Ísland, leit og björgun, gistiríkjastuðning og samhæfingu stofnana sem að verkefninu koma hér á landi,” að því er fram kemur í tilkynningu á vef stjórnarráðsins um æfinguna.

Æfingin fer að mestu fram á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli og miðar að því að mæta hefðbundinni hernaðarógn á landi, á sjó og í lofti og því viðbúið að almenningur verði var við sveitir, flugvélar, skip og önnur hergögn í tengslum við æfinguna. Einnig verða æfð viðbrögð við fjölþáttaógnum og skemmdarverkum þar sem kann að reyna á viðbrögð og viðbragðsgetu íslenskra stjórnvalda og stofnanna.

„Æfðar verða til dæmis uppgöngur í skip, viðbrögð við árás á mikilvæga innviði, kafbátaeftirlit, flutningur á búnaði og liðsafla til Íslands, gistiríkjastuðningur og samskipti við stjórnstöðvar hér á landi, sprengjueyðing, viðgerðir á flugbrautum eftir sprengjuárás, eldsneytisáfyllingar, leit og björgun og sjúkraflutningar. Hingað kemur meðal annars pólsk hersveit með færanleg – óvirk –eldflaugavarnarkerfi til að verjast óvinveittum skipum,” segir ennfremur um æfinguna í tilkynningu utanríkisráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×