„Í gærkvöldi mældist mikil mengum í Vogum, með því hæsta sem mælst hefur síðan gosið hófst,“ segir Salóme Jórunn Bernharðsdóttir hjá Veðurstofunni.
„Það er ríkjandi sunnan- og suðaustan átt í dag og það beinir þessari loftmengun yfir Voga og mögulega Suðurnesin. Það er búist við því að það verði aftur mikil gasmengun við Voga, en það fer mjög eftir því hver stefnan á vindinum verður.“
Í morgun hafi Veðurstofa fengið fregnir af greinilegri blámóðu milli Voga og Njarðvíkur.
„Þá var þetta akkúrat að sleppa á milli. En það þarf ekki mikla breytingu á vindi til að þetta fari hvort sem yfir Voga eða Njarðvík.“
Hún segir fleiri landsvæði ekki í hættu í bili. Svifryksmengun hefur einnig mælst í morgun frá gróðureldum, meðal annars í Garði.
„Vindurinn er núna nógu sterkur til að halda þessu í mjórri ræmu. Vonandi finnur hann leið á milli bæjarfélagana til að áhrifin verði sem minnst.
Skilaboðin séu því að fylgjast vel með loftgæðamælum, hægt er að gera það á vefsíðunni loftgaedi.is.
„En núna eru loftgæðin bara fín, við vonum bara að úrkoman slökkvi þessa gróðurelda.“