Þetta segir Bjarki Kaldalóns Friis náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands í samtali við fréttastofu.
Loftmengunar frá gosstöðvunum hefur ekki orðið vart síðastliðinn sólarhring. Bjarki segir rok og rigningu koma í veg fyrir gróðurelda á svæðinu og í veg fyrir loftmengun. Þá blási norðvestanátt allri loftmengun úr landi.
Bjarki segir skjálftavirkni í kvikuganginum aðeins minni en áður. Skjálftavirkni hafi þó verið nokkuð meiri í þessu eldgosi en þeim fyrri á svæðinu.
Sem fyrr gýs úr tveimur gígum við enda sprungunnar sem opnaðist þegar eldgos hófst fyrir tæpum tveimur vikum. Beina útsendingu af gosinu má nálgast hér að neðan.