Erlent

Stjörnu­blaða­maður í straff vegna sam­bands við Kenne­dy

Kjartan Kjartansson skrifar
Olivia Nuzzi (t.v.) segist hafa myndað persónulegt samband við viðmælanda sinn, Bandarískir fjölmiðlar segja að viðmælandi hafi verið Robert F. Kennedy yngri (t.h.).
Olivia Nuzzi (t.v.) segist hafa myndað persónulegt samband við viðmælanda sinn, Bandarískir fjölmiðlar segja að viðmælandi hafi verið Robert F. Kennedy yngri (t.h.). Vísir

Bandaríska tímaritið New York hefur sent aðalfréttaritara sinn í Washington-borg í leyfi eftir að í ljós kom að hún átti í sambandi við Robert F. Kennedy yngri, fyrrverandi forsetaframbjóðanda. Blaðakonan skrifaði meðal annars um Kennedy.

Olivia Nuzzi er einn þekktasti blaðamaður New York en viðtal hennar við Donald Trump er forsíðugrein í nýjasta hefti tímaritsins. Hún skrifaði meðal annars langa umfjöllun um Kennedy og framboð hans sem birtist í nóvember. Í henni lýsti Nuzzi meðal annars skelfilegri bílferð með Kennedy og hundum hans.

Sú lífsreynsla virðist þó ekki hafa verið skelfilegri en svo að Nuzzi og Kennedy áttu í persónulega sambandi sem hún greindi vinnuveitendum sínum á tímaritinu ekki frá.

Ritstjóri New York greindi starfsmönnum tímaritsins frá málinu í dag, að sögn AP-fréttastofunnar. Hann sagði að Nuzzi hefði sagt stjórnendum tímaritsins að hún hefði ekki tekið upp sambandið við Kennedy fyrr en í desember, eftir að umfjöllun hennar um hann birtist. Sambandi þeirra hafi lokið í ágúst.

Rauf trúnað við lesendur

Tímaritið sagði í gær að ef ritstjórar þess hefðu vitað af sambandi Nuzzi við Kennedy hefðu þeir ekki leyft henni að fjalla um forsetakosningarnar í haust. Hún hefði brotið siðareglur tímaritsins. 

Úttekt á störfum Nuzzi hefði ekki leitt í ljós neinar staðreyndavillur eða merki um hlutdrægni. Hún yrði engu að síður í leyfi á meðan utanaðkomandi aðili færi nánar yfir verk hennar.

„Við hörmum þetta brot á trúnaði við lesendur okkar,“ sagði tímaritið í yfirlýsingu.

Vefútgáfum af greinum sem Nuzzi skrifaði um Joe Biden í sumar og Donald Trump nú í haust munu fylgja athugasemdir þar sem greint er frá mögulegum hagsmunaárekstri Nuzzi.

Nuzzi sagði í yfirlýsingu að samband hennar við viðmælanda hafi orðið persónulegt en nefndi ekki Kennedy á nafn. Samband þeirra hefði aldrei orðið holdlegt. Hún hefði engu að síður átt að upplýsa um sambandið. Bað hún samstarfsfélaga sína á tímaritinu afsökunar.

Kennedy, sem dró framboð sitt til forseta til baka og lýsti yfir stuðningi við Trump fyrr í þessum mánuði, sagðist í yfirlýsingu aðeins hafa hitt blaðakonuna einu sinni. Kennedy er giftur leikkonunni Cheryl Hines.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×