Í tilkynningu segir að markmiðið með kaupunum sé að bjóða viðskiptavinum fjölbreyttari þjónustu, fjölga tekjustoðum og auka verðmæti bankans fyrir hluthafa.
Þá kemur einnig fram í tilkynningunni að Fjármálaeftirlitið telji Landsbankann einnig hæfan til að fara með virkan eignarhlut í TM líftryggingum hf. og Íslenskri endurtryggingu hf. sem eru dótturfélög TM trygginga hf.
Kaupin eru enn háð því að Samkeppniseftirlitið samþykkti þau en sú málsmeðferð er nú hafin. Í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu í gær kom fram að formleg málsmeðferð hafi hafist 20. september. Í tilkynningunni var öllum hagsmunaaðilum og öðrum áhugasömum aðilum boðið að skila inn sínum sjónarmiðum varðandi samruna fyrirtækjanna. Frestur var gefinn til föstudagsins næsta, 27. september.
Greint var frá því í maí á þessu ári að Landsbankinn hefði gengið til samninga við Kviku banka um kaup á tryggingafélaginu TM fyrir 28,6 milljarða króna. Endanleg greiðsla fyrir TM er sögð háð kaupverðsaðlögun á þeim degi sem bankinn tekur við rekstri félagsins að fengnu leyfi eftirlitsstofnana.
Kaup Landsbankans á TM hafa verið umdeild. Bankasýsla ríkisins taldi kaupin ekki samræmast eigendastefnu ríkisins og sagðist ekki hafa verið upplýst um fyrirætlanir bankans. Því hafnaði þáverandi bankaráðið og sakaði bankasýsluna um aðdróttanir í sinn garð. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þáverandi fjármálaráðherra, lýsti einnig andstöðu við kaupin.