Körfubolti

Æfir eftir stæla þjálfarans og banna leik­­menn í lands­liðið

Sindri Sverrisson skrifar
Ergin Ataman er sár yfir afleiðingum þess að hafa lyft 3+1 fingrum í beinni sjónvarpsútsendingu.
Ergin Ataman er sár yfir afleiðingum þess að hafa lyft 3+1 fingrum í beinni sjónvarpsútsendingu. Skjáskot/A Spor Canli

Það kemur ekki til greina að leikmenn tyrkneska körfuboltaliðsins Fenerbahce spili fyrir tyrkneska landsliðið, á meðan að Ergin Ataman stýrir landsliðinu. Heiftúðugur rígur veldur því.

Ataman hefur stýrt tyrkneska landsliðinu frá árinu 2022 en er einnig þjálfari gríska félagsins Panathinaikos.

Hann olli mikilli reiði eftir vináttuleik körfuboltaliða Panathinaikos og Galatasaray, en Ataman er stuðningsmaður fótboltaliðs Galatasaray.

Ataman lyfti einum fingri og þremur fingrum í átt til áhorfenda, og vísaði þannig í 3-1 sigur Galatasaray gegn Fenerbahce í tyrknesku fótboltadeildinni.

Þó að þjálfarinn hafi beðist afsökunar á framferði sínu þá dugar það ekki til. Forráðamenn Fenerbahce eru æfir og hafa tilkynnt að Ataman fái aldrei að nýta leikmenn liðsins í landsliðinu.

Segja hegðunina algjört virðingarleysi

„Það sem hann gerði fyrir framan milljónir áhorfenda stangast algjörlega á við þá virðingu og heilindi sem landsliðsþjálfari á að sýna. Landsliðið er okkar allra. Allir sem tilheyra því verða að vera meðvitaðir og sýna ábyrgð.

Þessi hegðun, sem átti að vera friðþæging gagnvart einu samfélagi, sýnir algjört virðingarleysi gagnvart okkar samfélagi, gagnvart landsliðsþjálfarastarfinu og hreinlega þjóð okkar,“ segir í yfirlýsingu Fenerbahce.

Aldrei leynt því hverja hann styður

Ataman velur næst landsliðshóp í nóvember þegar Tyrkir mæta Ungverjum í undankeppni EM. Þó að hann segist sjá eftir öllu saman þá verða væntanlega engir leikmenn Fenerbahce í þeim leikjum.

„Ég hef sem þjálfari alltaf sýnt Fenerbahce-samfélaginu virðingu en á sama tíma tekið fram að ég er einn harðasti andstæðingur liðsins innan vallar. Ég geri mér grein fyrir því ónæði sem ég olli með hegðun minni, og er afar sorgmæddur yfir því hvernig henni hefur verið tekið, með hætti sem ég vildi ekki,“ sagði Ataman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×