Fótbolti

Nökkvi Þeyr kom að marki og Messi bjargaði stigi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Nökkvi Þeyr byrjaði á bekknum.
Nökkvi Þeyr byrjaði á bekknum. Bill Barrett/Getty Images

Nökkvi Þeyr Þórisson var með svokallaða íshokkí-stoðsendingu í 3-1 sigri sinna manna í St. Louis City á Sporting Kansas City í MLS-deildinni í knattspyrnu. Þá skoraði Lionel Messi glæsimark sem bjargaði stigi fyrir Inter Miami gegn Charlotte.

Nökkvi Þeyr hóf leikinn á bekknum en kom inn af bekknum í stöðunni 2-0 fyrir St. Louis. Aðeins nokkrum mínútum síðar minnkuðu gestirnir muninn en Nökkvi Þeyr og félagar gerðu út um leikinn þegar stundarfjórðungur var til leiksloka.

Nökkvi þeir gaf boltann þá á hinn þýska Cedric Teuchert, sem hafði skorað fyrsta mark leiksins og lagt upp annað. Þjóðverjinn óð inn á teig og lagði boltann út á samlanda sinn Eduard Lowen sem lagði boltann snyrtilega í netið. Staðan orðin 3-1 og reyndust það lokatölur.

Í íshokkí er talað um að sendingin á þann sem gefur stoðsendingu sé einnig stoðsending og eru slíkar stoð-stoðsendingar, eða íshokkí-stoðsending, taldar í Bandaríkjunum. Nökkvi Þeyr því með eina slíka í dag.

St. Louis City er í 12. sæti vesturhluta MLS-deildarinnar með 34 stig og ljóst að liðið kemst ekki í úrslitakeppnina.

Lionel Messi og félagar í stjörnuliði Inter Miami höfðu gert tvö jafntefli í röð fyrir leik gærkvöldsins og þar varð engin breyting á. Liðið lenti undir gegn Charlotte áður en hinn 37 ára gamli Messi jafnaði metin með föstu skoti niðri í vinstra markhornið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×