Erlent

Síðasta kola­orku­veri Bret­lands lokað

Kjartan Kjartansson skrifar
Ratcliffe-on-Soar-kolaorkuverið í Nottingham á Englandi. Slökk var á þessu síðasta kolaorkuveri Bretlands í nótt.
Ratcliffe-on-Soar-kolaorkuverið í Nottingham á Englandi. Slökk var á þessu síðasta kolaorkuveri Bretlands í nótt. AP/Rui Vieira

Brennslu kola til rafmagnsframleiðslu er lokið í Bretlandi eftir 142 ára sögu. Slökkt var á síðasta kolaorkuveri landsins í nótt. Meiri en helmingur af raforku er nú framleidd með endurnýjanlegum hætti í Bretlandi.

Ratfliffe-on-Soar-kolaorkuverið í Nottingham á Englandi brenndi sínum síðustu kolum á miðnætti að staðartíma í nótt. Það hafði verið starfrækt frá árinu 1967. Peter O'Grady, stöðvarstjóri versins, segir daginn tilfinningaþrunginn.

„Þegar ég hóf feril minn fyrir 36 árum ímyndað ekkert okkar sér framtíð án kolabrennslu um ævi okkar,“ segir O'Grady.

Fyrsta kolaorkuverið, Rafljóssstöð Edisons, opnaði í London árið 1882. Síðan þá voru kol aðalorkugjafi landsins. Íbúar stórborga fundu áþreifanlega fyrir því þegar mengunarþoka vegna kolabrunans lá yfir þeim.

Hlutur kola í orkuframleiðslu Bretlands hefur verið á hraðri niðurleið. Um áttatíu prósent alls rafmagns þar var framleitt með bruna á kolum árið 1990 en hlutfallið var komið niður í 39 prósent árið 20212. Í fyrra stóðu kol aðeins fyrir einu prósenti af raforkuframleiðslunni.

Um helmingur raforku í Bretlandi er nú framleiddur í sólar- og vindorkuverum og afgangurinn með bruna á jarðgasi og í kjarnorkuverum. Bresk stjórnvöld stefna að því að öll orka í landinu verði vistvæn fyrir árið 2030.

„Tímabili kolanna er kannski að ljúka en ný öld góðra starfa í orkuframleiðslu í landinu er bara rétt að byrja,“ sagði Michael Shanks, orkumálaráðherra, í tilefni tímamótanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×