Stjórnvöld í Ísrael eru sögð eiga í samráði við Bandaríkjamenn um viðbrögðin, þar sem þau gætu kallað á aðra árás af hálfu Írana og inngrip Bandaríkjanna og bandamanna til að verjast slíkri árás.
Samkvæmt Guardian hafa greinendur ekki útilokað þann möguleika að Ísrael muni grípa til aðgerða gegn kjarnorkuinnviðum Írana en yfirvöldum í Bandaríkjunum mun þykja sá kostur síður fýsilegur þar sem hann myndi stórauka hættuna á enn frekari stigmögnun átaka á svæðinu.
„Þessi árás mun hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér og við munum vinna með Ísrael til að láta það raungerast,“ sagði Jake Sullivan, ráðgjafi Joe Biden Bandaríkjaforseta í þjóðaröryggismálum, í gær.
Benjamin Netanyahu er sagður hafa boðað til öryggisráðsfundar í gærkvöldi til að ræða möguleg viðbrögð en samkvæmt Axios var ekkert ákveðið hvað það varðar vegna þarfarinnar á samráði við Bandaríkjamenn.
Opinberlega hét forsætisráðherrann hins vegar hefndum.
Nokkrir þingmenn í Bandaríkjunum, þeirra á meðal Repúblikaninn Lindsey Graham, hafa kallað eftir árásum á olíuhreinsistöðvar Írana.
Greint hefur verið frá átökum milli innrásarhers Ísrael og Hezbollah-liða í suðurhluta Líbanon í dag og þá hafa fjölmiðlar í Ísrael sagt að um 100 eldflaugum hafi verið skotið í átt að norðurhluta Ísrael frá Líbanon það sem af er degi.