Starfsfólkið, sem allt segist félagar í Eflingu, ræddi við fréttastofu fyrir utan húsnæði Eflingar áður en inn var haldið. Þar sagðist það ekki hafa lent í neinum vandræðum við að fá laun sín greidd, en í síðasta mánuði var greint frá mótmælum Eflingar við veitingastaðinn vegna meints launaþjófnaðar. Staðurinn er í eigu Elvars Ingimarssonar.
„Efling ætlar ekki að hætta að leggja bílnum fyrir utan veitingastaðinn, þannig að við fáum enga viðskiptavini. Fyrst við fáum enga viðskiptavini eigum við á hættu að missa störfin okkar. Þess vegna erum við hér,“ sagði Alex Gonzalez, einn starfsmannanna.
Starfsmennirnir sögðu að eftir því sem þeir best vissu væri búið að leysa úr öllum launamálum staðarins, og því væri mál að linni. Efling þyrfti að hlusta á kröfur þeirra og hætta að leggja bílnum fyrir utan staðinn.
Ræddi við hópinn frammi á biðstofu
Hópurinn, sem taldi um tíu manns, hélt því næst inn í húsnæði Eflingar, ræddi við móttökuritara og vildi fá að ræða við einhvern sem hefði eitthvað með sendiferðabílinn að segja.
Ekki leið að löngu þar til Viðar Þorsteinsson, fræðslustjóri Eflingar, mætti og ræddi við Alex í viðurvist hinna starfsmannanna. Hann sagði meðal annars að staðurinn hefði ekki staðið skil á öllum launagreiðslum sem fólk ætti inni, né heldur öllum skattgreiðslum.

„Við erum líka launafólk,“ sagði Alex við Viðar, sem samsinnti sjónarmiðum starfsmannahópsins að mörgu leyti. Hann sagði þó líklegt að á einhverjum tímapunkti myndi launaþjófnaður eða önnur brot gera vart við sig, og að það væri réttur fyrri starfsmanna að fá greidd þau laun sem þeir eigi inni.
„Þetta ætti ekki að leggja störf ykkar í hættu. Það er á ábyrgð rekstraraðila fyrirtækisins að leysa þessi mál,“ sagði Viðar, og sýndi því skilning að starfsfólkið væri í erfiðri stöðu.
Bókuðu fund og tókust í hendur
Samtali þeirra Viðars og Alex lauk með því að þeir urðu ásáttir um að halda fund með núverandi og fyrrverandi starfsfólki á Ítalíu, auk fulltrúa Eflingar, til þess að ræða málin og finna málinu farsælan farveg.
„Ert þú tilbúinn til þess að gerast trúnaðarmaður,“ spurði Viðar í lok samtalsins.
„Já, af hverju ekki,“ svaraði Alex þá um hæl. Að svo búnu tókust þeir í hendur og starfsfólkið hélt sína leið.

Fyrirtækið með „allt niður um sig“
Í samtali við fréttastofu sagðist Viðar vel skilja málstað starfsmannanna. Í þessu tilviki væru aðgerðir Eflingar byggðar á reynslu og vilja stórs hóps fyrrverandi starfsmanna Ítalíu.
„Þetta er staða sem getur komið upp og ég hlakka til að eiga samtal við þessa starfsmenn, þessa félagsmenn okkar,“ sagði Viðar. Hann sagði félagið sem stendur að rekstri Ítalíu ekki hafa greitt úr öllum sínum málum, heldur væri með „allt niður um sig“.
„Það er ekki bara í því að greiða laun til félagsfólks í Eflingu, heldur líka greiðslur á skatti, svo dæmi sé tekið. Ég myndi segja að ef þú ert starfsmaður sem er að vinna hjá þessu fyrirtæki þá er bara tímaspursmál hvenær þú verður svikinn um laun, vegna þess að mynstrið í því er svo algjörlega skýrt.“
Nú ætlið þið að hittast, þessi hópur og fyrrverandi starfsmenn. Kemur til greina að láta af þessum aðgerðum í millitíðinni, að beiðni þessa fólks?
„Ég held að við metum það bara, hvað við teljum rétt.“