Gestirnir úr Garðabænum voru skrefinu á undan í fyrri hálfleik og tveimur mörkum yfir þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks, 12-14. Stjarnan skoraði fyrstu þrjú mörk síðari hálfleiks og það leit út fyrir að gestirnir væru að fara heim með sigur í pokahorninu.
Staðan var 17-22 þegar endurkoman hófst en þá skoraði Fjölnir fjögur mörk í röð. Við það setti Stjarnan aftur í gír og var komin fjórum mörkum yfir þegar tíu mínútur lifðu leiks. Fimm mínútum síðar fór allt í baklás hjá gestunum.
Munurinn kominn niður í eitt mark og á lokasprett leiksins reyndist heimaliðið betra. Ótrúlegur eins marks sigur Fjölnis staðreynd, lokatölur 29-28.
Haraldur Björn Hjörleifsson var markahæstur í liði Fjölnis með 8 mörk. Þar á eftir kom Viktor Berg Grétarsson með 6 mörk. Í markinu vörðu Bergur Bjartmarsson og Sigurður Ingiberg Ólafsson samtals 10 skot.
Tandri Már Konráðsson var markahæstur hjá Stjörnunni með 10 mörk. Hans Jörgen Ólafsson kom þar á eftir með 6 mörk. Í markinu varði Adam Thorstensen 15 skot.
Fjölnir og Stjarnan nú bæði með fjögur stig að loknum fimm umferðum, hafa bæði unnið tvo og tapað þremur.