Hrútasýningin fór fram í gær í reiðhöllinni á Flúðum á vegum Sauðfjárræktarfélags Hrunamanna. Mikil stemming var á sýningunni enda margt fólk og mikið af fallegu fé en um 3.200 vetrarfóðraðar kindur eru í Hrunamannahreppi. Presturinn í Hruna er einn af aðal mönnunum í sveitinni þegar íslenska sauðkindin er annars vegar.
„Heyrðu, við erum hérna með sérlega sérfræðinga, sem þukla hrúta í hinum ýmsu flokkum. Það eru mislitir og hvítir lambhrútar og veturgamlir,” segir séra Óskar Hafsteinn Óskarsson og ritari í stjórn Sauðfjárræktarfélags Hrunamanna.
Svo var það rollubingóið, sem sló algjörlega í gegn en hvernig fer það fram?
„Þá setjum við kind inn á bingóspjald. Hún vafrar þar um og allir bíða í ofvæni eftir að hún geri stykkin sín og í þann reit, sem hún gerir stykkin sín, sá fær bingó,” segir Óskar Hafsteinn.
Og dómararnir höfðu meira en nóg að gera við dómarastörfin sín en þá er verið að leita af ákveðnum atriðum.
„Það er bara bakið og lærin og bringan, þetta er allt massað af vöðvum,” segir Jökull Helgason, annar af dómurum dagsins.
Sérstök dómnefnd valdi fallegustu gimbur á hrútasýningunni en það var flekkótt gimbur frá Ásatúni. Hún fékk strax nafnið Fegurðardrottning.
Og það er vaninn á hrútasýningum í Hrunamannahreppi að útnefnda íhaldsmann ársins en í ár er það Björgvin Ólafsson í Hrepphólum, mikill íhaldsmaður.
„Þetta er mikill heiður, ég fæ að velja á næsta ári næsta íhaldsmann,” segir Pétur hlæjandi.