Leik lokið: FH - Gummersbach 21-40 | Læri­sveinar Guð­jóns Vals sýndu enga miskunn

Ágúst Orri Arnarson skrifar
FH-ingar voru vel studdir á afmælinu í Kaplakrika í kvöld en máttu þola risatap.
FH-ingar voru vel studdir á afmælinu í Kaplakrika í kvöld en máttu þola risatap. vísir/Anton

FH beið algjört afhroð gegn þýska liðinu Gummersbach, lærisveinum Guðjóns Vals Sigurðssonar. Lokatölur 21-40 í Kaplakrika, í leik sem gestirnir áttu frá upphafi til enda.

Gestirnir voru ekki að tvínóna við hlutina í kvöld og sýndu strax mikinn styrk. FH-vörnin var í stökustu vandræðum og auðvelt reyndist að finna opnanir.

Það þótti Miro Schluroff sérstaklega, stökk yfir vörnina í skot eða fann sér leið í gegnum hana og skoraði átta sinnum bara í fyrri hálfleik.

Hálfleikstölur 12-19 en FH-ingar hefðu hæglega getað haft muninn minni. Klúðruðu þremur vítum og létu verja frá sér í fínum færum.

Ólafur Gústafsson með tak á Elliða Snæ Viðarssyni sem var á línunni hjá Gummersbach að vanda.vísir/Anton

FH-ingar söknuðu vissulega lykilleikmanna, Aron Pálmarsson spilaði ekkert, Ólafur Gústafsson og Ágúst Birgisson komu sömuleiðis lítið við sögu. Þrír þrususkrokkar sem hefðu komið sér vel varnarlega.

Í seinni hálfleik lögðu gestirnir fótinn á bensíngjöfina og neituðu að lyfta honum sama hversu oft þeir keyrðu yfir FH-liðið.

Gjörsamlega völtuðu yfir heimamenn, fundu alltaf leið að marki sama hvert var leitað, brutust í gegnum gatasigtið sem FH-vörnin var margoft og voru undir lokin farnir að leika sér að hlutunum með sirkusmörkum og stælum.

Guðjón Valur Sigurðsson á hliðarlínunni í Kaplakrika í kvöld.vísir/Anton

FH-liðið var gjörsigrað og gat lítið gert annað en að bíða eftir því að leikurinn yrði flautaður af. Sjálfstraustið horfið og skellurinn algjör. Skelfileg leið til að halda upp á 95 ára afmæli félagsins.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira