Erlent

Metsekt fyrir að mis­muna gyðingum og banna þeim að fljúga

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lufthansa samþykkti að greiða sektina en hefur ekki viðurkennt sök.
Lufthansa samþykkti að greiða sektina en hefur ekki viðurkennt sök. epa/Toms Kalnins

Bandaríska ríkið hefur sektað flugfélagið Lufthansa um fjórar milljónir dala fyrir að hafa bannað gyðingum að ganga um borð í vél félagsins árið 2022 þar sem sumir þeirra neituðu að bera sóttvarnagrímu.

Yfirvöld segja að um mismunun hafi verið að ræða, þar sem öllum hópnum var bannað að fljúga jafnvel þótt um væri að ræða einstaklinga og hópa sem þekktust ekki. 

Um er að ræða metupphæð en aldrei áður hefur svo há sekt verið lögð á flugfélag fyrir að brjóta gegn réttindum fólks.

Talsmenn Lufthansa segja fyrirtækið hafa samþykkt að greiða sektina til að forðast málaferli en neita að hafa mismunað gegn farþegunum. Segja þeir málið byggja á misskilningi þegar atvikið átti sér stað.

Umræddir farþegar voru að fara frá New York til Búdapest í maí 2022 og klæddust allir klæðnaði strangtrúaðra gyðinga. Þeir áttu það annað sameiginlegt að hafa bókað ferðalög sín með sömu ferðaskrifstofum.

Millilent var í Frankfurt, þar sem öryggisvörðum var gert viðvart að sumir farþegar hefðu neitað að fara eftir ábendingum áhafnarinnar um að bera sóttvarnagrímur og forðast það að safnast saman á göngum vélarinnar.

Ákveðið var í framhaldinu að ógilda um hundrað miða en miðaeigendurnir áttu það sameiginlegt að vera gyðingar.

Samkvæmt úrskurði yfirvalda voru fulltrúar Lufthansa meðvitaðir um að með því að refsa hópnum væru þeir að refsa einstaklingum sem hefðu ekkert gert af sér en þeir sögðu ekki praktískt að taka á hverju máli fyrir sig.

Meirihluti farþeganna var bókaður í annað flug sama dag.

Yfirvöld sögðu Lufthansa ekki hafa getað bent á einn einasta farþega og ákveðið brot sem viðkomandi hefði framið en talsmenn fyrirtækisins sögðu brotin hafa verið svo mörg og staðið yfir svo lengi að það hefði verið ómögulegt að tengja stöku farþega við stöku brot.

BBC greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×