Skoðun

Ekki fleiri tíma­bundna plástra

Karó­lína Helga Símonar­dóttir skrifar

Hvernig stendur á því að við erum enn þá, árið 2024 að slökkva elda í staðin fyrir að styrkja forvarnir? Mér finnst ég svolítið hafa nefnt þetta oft á síðustu 10 árum, en það hefur lítið gerst í samfélaginu. Jú nema einhver ný hugtök litið dagsins ljós og kannski ein og ein skýrsla.

Forvarnir gleymast alltof oft þegar fjármunum er deilt.

En það að fjárfesta í forvörnum þá er verið að fjárfesta í ávinningi, t.d. náum við að koma í veg fyrir vandamál og búum þannig til heilbrigðari, öruggari og sjálfbærari samfélög.

Í hugmyndafræði fyrirtækja eru oft nokkrir punktar taldir upp sem ákveðin rauð flögg

T.d. „Mikið áreiti skapast við að vera ítrekað að slökkva elda, en fá svo sömu vandamál aftur upp í hendurnar.”

Það er í rauninni allt of algengt hjá ríki og sveitarfélögum að þar sé viðhöfð sú aðferðafræði að kaupa sér tíma með “tímabundnum plástrum” í stað þess að fjárfesta í farsælum, langtíma lausnum til þess að leysa rót vandans.

Forvarnir geta verið að ýmsum toga en ef við horfum til menntastofnana samfélagsins og félagslegra forvarna þá er margt sem stjórnvöld geta gert betur.

Í menntun felur það í sér snemmtæka íhlutun sem og fleiri þætti í námi og kennslu. Það að geta greint og tekist á við vandamál snemma þá er hægt að koma í veg fyrir stærri fræðileg og félagsleg vandamál síðar.

Það að geta gripið nemandann og aðstoðað hann í gegnum hindranir, kennir nemandanum einnig að takast á við hindranir í lífinu seinna meir.

….En…..

Það þarf að vera rými fyrir kennara til þess að geta gripið nemendur. Kennarar þurfa fá svigrúm inn í starfinu sínu til þess að viðhalda mannlegu gildunum. Það þarf að vera gott starfsumhverfi, með viðunandi kjörum fyrir kennara.

Það þurfa einnig að vera viðunandi starfsaðstæður. Forvarnir snúa líka að viðhaldi húsnæðis, lóða og á búnaði. Hvernig rýmin eru, hvort loft og hljóðvist sé í lagi. Hvort til séu ferlar og reglur sem snúa að öryggi starfsmanna og nemenda, og þeim fylgt eftir. Ef þessar forvarnir eru í lagi þá er hægt að draga úr líkum á vinnutengdum veikindum, slysum og vernda bæði starfsmenn og nemendur.

Ekkert af þessu gengur upp nema ráðamenn þjóðarinnar og sveitarfélaga byrja fyrir alvöru að því að vinna að rót vandans með metnaðarfullri framtíðarsýn.

Höfundur er varabæjarfulltrúi Viðreisnar í Hafnarfirði og fulltrúi í Fræðsluráði Hafnarfjarðar.




Skoðun

Sjá meira


×