Innlent

Á annan milljarð í þjálfun, búnað og her­gögn fyrir Úkraínu

Kjartan Kjartansson skrifar
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, (t.h.) með Volodýmýr Selenskíj, forseta Úkraínu, á Þingvöllum. Það var Bjarni sem sat leiðtogafund NATO í sumar þar sem ákveðið var að auka varnartengdan stuðning við Úkraínu.
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, (t.h.) með Volodýmýr Selenskíj, forseta Úkraínu, á Þingvöllum. Það var Bjarni sem sat leiðtogafund NATO í sumar þar sem ákveðið var að auka varnartengdan stuðning við Úkraínu. Vísir/Vilhelm

Einn og hálfur milljarður króna í aukinn stuðning við Úkraínu í fjáraukalögum á að mæta kostnaði við auknar skuldbindingar Íslands sem samið var um á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í sumar. Stuðningurinn fer áfram í þjálfun, kaup á búnaði og hergögnum og framlögum í sjóði sem styðja varnir Úkraínu.

Leiðtogar NATO-ríkja samþykktu að verja að lágmarki fjörutíu milljörðum evra á ári í varnartengdan stuðning við Úkraínu á fundi þeirra í Washington-borg í júlí. Hlutdeild Íslands í stuðningnum á að nema 0,66 prósentum eða að lágmarki 3,7 milljörðum króna samkvæmt svari utanríkisráðuneytisins við skriflegri fyrirspurn Vísis. 

Kostnaðurinn við aðstoðina skiptist niður á ríki í samræmi við hlutdeild þeirra í sameiginlegum sjóðum NATO sem tekur mið af vergri landsframleiðslu ríkjanna. Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, sat fundinn fyrir hönd Íslands.

Til þess að mæta hluta kostnaðarins við þessar auknu skuldbindingar Íslands og þingsályktun um stefnu um stuðning Íslands við Úkraínu næstu fjögur árin sem Alþingi samþykkti í vor er lagt til að einum og hálfum milljarði króna verði varið aukalega til varnartengds stuðnings við Úkraínu í fjáraukalögunum sem voru lögð fram í síðustu viku. Þegar var gert ráð fyrir 750 milljónum króna til varnartengdra verkefna í fjárlögum ársins.

Varnartengdur stuðningur Íslands við Úkraínu mun áfram beinast að þjálfunarverkefnum, kaupum á búnaði og hergögnum og framlögum í fjölþjóðlega sjóði eða verkefni til stuðnings varnarbaráttu Úkraínu í samræmi við ályktun Alþingis um stuðninginn, að því er kemur fram í svari ráðuneytisins.

Frumvarpið að fjáraukalögum var sent til fjárlaganefndar eftir að fyrstu umræðu um það lauk á fimmtudaginn 24. október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×