Innlent

Fimm börn al­var­lega veik á gjör­gæslu vegna E.coli sýkingar

Lovísa Arnardóttir skrifar
Þeim hefur fækkað um eitt síðan í gær sem eru inniliggjandi en fjölgað um tvö sem eru á gjörgæslu.
Þeim hefur fækkað um eitt síðan í gær sem eru inniliggjandi en fjölgað um tvö sem eru á gjörgæslu. Vísir/Vilhelm

Alls eru nú tíu börn inniliggjandi á Landspítalanum vegna E.coli sýkingar. Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum eru þar af fimm þeirra á gjörgæslu. Um 40 börn eru undir eftirlit vegna sýkingarinnar. E. Coli sýking getur leitt til alvarlegar nýrnabilunar og því eru börn sem eru á gjörgæslu í blóðskilun.

Sýkingin kom upp á leikskólanum Mánagarði í síðustu viku. Leikskólinn hefur frá þeim tíma verið lokaður en uppruni sýkingarinnar er enn óljós. Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir sagði í kvöldfréttum á RÚV í kvöld að sýking af þessum skala hefði aldrei sést á Íslandi áður. Hún sagði uppruna sýkingarinnar geta verið frá hakki eða grænmeti. Það sé enn til skoðunar.

Soffía Emelía Bragadóttir leikskólastjóri á Mánagarði sagði í viðtali við Vísi í gær að enginn starfsmaður hefði veikst. Þau myndu kaupa mat fyrir börn og starfsmenn þar til búið sé að leysa úr því hvaðan sýkingin kom. Hún átti von á því að geta opnað leikskólann á morgun.

Stofnaður var stuðningshópur fyrir foreldra barna sem hafa smitast af sýkingunni í vikunni. Tvær konur sem eiga börn sem smituðust í E.coli sýkingu á Efstadal árið 2019 stofnuðu hópinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×