Enski boltinn

Hefur ekki tekið á­kvörðun um að taka við Man. Utd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ruben Amorim stýrir hér liði Sporting CP í gærkvöldi en hann vildi ekkert gefa upp um framtíð sína á blaðamannafundi eftir leikinn.
Ruben Amorim stýrir hér liði Sporting CP í gærkvöldi en hann vildi ekkert gefa upp um framtíð sína á blaðamannafundi eftir leikinn. Getty/Carlos Rodrigues

Ruben Amorim stýrði Sporting til sigurs í portúgalska deildabikarnum í gærkvöldi en fyrr um daginn höfðu margir helstu fjölmiðlar Evrópu staðfest hann sem næsta knattspyrnustjóra Manchester United.

Amorim var auðvitað spurður út í þetta á blaðamannafundi eftir 3-1 sigur á Nacional.

Amorim staðfesti áhugann frá United en sagði enga ákvörðun hafa verið tekna um það hvort hann taki við starfinu.

„Félagið gaf út þessa yfirlýsingu og það er það eina sem er staðfest núna,“ sagði Amorim og vísaði þar í það að Sporting sagðist hafa samþykkt tilboð United í hann.

United mun borga Sporting tíu milljónir evra, einn og hálfan milljarð króna, og kaupa hann út úr samningnum.

„Það er áhugi frá Manchester United en þetta er og þarf að vera mín ákvörðun. Áður en allt er komið á hreint þá mun ég ekki ræða þetta. Ég hef ekkert að segja,“ sagði Amorim.

„Ég geri bara það sem ég vil gera og hef alltaf gert,“ sagði Amorim.

„Það er félag sem er áhugasamt og hefur haft samband við klúbbinn. Þeir eru tilbúnir að kaupa mig út úr samningi mínum hér. Ég stjórna því ekki. Við sjáum til hvað gerist á næstu dögun. Mín einbeiting er á það að undirbúa liðið mitt fyrir leikinn á móti Estreia Armadora á föstudaginn,“ sagði Amorim.

„Enginn veit hvort það sé kveðjuleikur eða hvort að það verði einhver kveðjuleikur. Ekkert hefur verið ákveðið og við skulum því frekar ræða þennan leik í kvöld. Um leið og ég hef tekið ákvörðun þá mun ég koma fram og útskýra hana.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×