ÍBV sótti HK heim í leik sem átti að fara fram í gær en var frestað vegna veðurs. Það virtist ekki hafa nein áhrif á ÍBV sem vann leikinn í Kópavogi með átta marka mun, lokatölur 23-31.
Danijela Sara Björnsdóttir, markvörður HK, verður ekki sökuð um að gera sitt besta en hún varði 15 skot í marki heimaliðsins. Leandra Náttsól Salvamoser var markahæst HK-inga með fimm mörk.
Hjá Eyjakonum vörðu Marta Wawrzykowska (13) og Bernódía Sif Sigurðardóttir (4) samtals 17 skot. Sunna Jónsdóttir og Dagbjört Ýr Ólafsdóttir voru markahæstar hjá gestunum með fimm mörk hvor.
Á Akureyri var Stjarnan í heimsókn hjá KA/Þór. Ferðalagið sat ekki í gestunum úr Garðabæ og unnu þeir fjögurra marka sigur, lokatölur 18-22.
Susanne Denise Pettersen skoraði sjö mörk í liði Akureyringa á meðan Tinna Sigurrós Traustadóttir skoraði sex mörk í liði Garðbæinga.
Í Kaplakrika var Grótta í heimsókn og unnu Seltirningar átta marka sigur, lokatölur 26-34. Í marki FH-inga varði Sigurdís Sjöfn Freysdóttir 14 skot í markinu á meðan Thelma Dögg Einarsdóttir var markahæst með sex mörk.
Í liði Gróttu varði Anna Karólína Ingadóttir 16 skot í markinu á meðan Ída Margrét Stefánsdóttir var markahæst með sjö mörk.