„Samkvæmt gildandi samgönguáætlun átti að ljúka vegagerð og fjarðaþverunum í Gufudalssveit í fyrra og Dynjandisheiðinni nú í ár,“ segir Einar í grein í vestfirska héraðsmiðlinum Bæjarins besta.
„Núna undir árslok 2024 er staðan hins vegar sú að enn er ólokið við að þvera Gufufjörð og Djúpafjörð í Gufudalssveitinni. Á Dynjandisheiðinni vantar herslumuninn; sjö kílómetrar eru enn óuppbyggðir og ómalbikaðir. Þetta er auðvitað gjörsamlega óviðunandi og óþolandi.
Brýnt er því að upplýst verði hvernig á því í standi að ekki hafi tekist að ljúka þessum framkvæmdum á réttum tíma, sem þó voru gefin fyrirheit um fyrir aðeins fjórum, fimm árum.“

Einar spyr hvort fjármunir í Vestfjarðaveg hafi verið fluttir eitthvað annað og segir erfitt að hugsa til þess, sem haldið hefur verið fram, að það skýri tafir á verkunum.
„Þetta hefur á hinn bóginn verið staðhæft á opinberum vettvangi. Til dæmis ítrekað í fréttum Stöðvar 2 nú nýverið, án þess að því hafi verið mótmælt, að fjármunir sem Alþingi hafi ákveðið að ættu að fara í Dynjandisheiði og Gufudalssveit hafi verið fluttir í stórframkvæmdir við Hornafjarðarfljót. Þetta er óþægileg tilhugsun og algjörlega óhjákvæmilegt að samgönguyfirvöld, Vegagerðin og ráðuneyti samgöngumála bregðist við og skýri það undanbragðalaust.“
Það var Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem fyrstur upplýsti um þessa tilfærslu fjármuna í þessu viðtali á Bylgjunni síðastliðið sumar:
En Einar vill einnig svör um að það hvenær verkin verði boðin út og hvenær þeim lokið. Það þurfi að liggja fyrir áður en gengið er til kosninga.
„Krafa okkar Vestfirðinga er sú að áður en gengið verði til alþingiskosninga 30. nóvember næstkomandi liggi það afdráttarlaust fyrir með opinberum hætti, að þessar mikilvægu samgöngubætur verði að veruleika svo fljótt sem verða má af tæknilegum ástæðum. Það er eiginlega ekki hægt að fara fram á neitt minna,“ segir Einar K. Guðfinnsson.
„Það er ekki eftir neinu að bíða og frekari tafir á þessari framkvæmd eru ekki í boði,“ segir Bolvíkingurinn.