Innlent

Kapp­hlaup við tímann í Karp­húsinu og eggja­skortur í að­draganda jóla

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Margrét Helga Erlingsdóttir les kvöldfréttir klukkan hálfsjö.
Margrét Helga Erlingsdóttir les kvöldfréttir klukkan hálfsjö. Vísir

Samningaviðræður í kjaradeilu lækna og ríkisins eru á lokastigi og verið er að teikna upp kjarasamning, að sögn ríkissáttasemjara. Keppst er við að ná samningum áður en verkfall lækna hefst á miðnætti. Við förum yfir stöðuna í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í opinni dagskrá klukkan 18:30.

Verulega dró úr virkni í eldgosinu við Sundhnúksgíga í nótt. Unnið er hörðum höndum að hraunkælingu í Svartsengi, svo auðveldara sé að hækka varnargarða. Þá er Grindavík að verða að ruslatunnulausum bæ. Við vorum á ferðinni á Suðurnesjum í dag. 

Við förum líka yfir umdeilt samkomulag sem náðist á COP29, eftir dramatíska atburðarás. Guðmundur Steingrímsson varaformaður Landverndar kemur í myndver og ræðir niðurstöðuna í beinni.

Viðvarandi eggjaskortur hefur verið á landinu allt þetta ár og ekki útlit fyrir að bót verði á. Verslanir hafa óskað eftir undanþágu frá tollkvóta svo hægt sé að flytja inn nóg af eggjum fyrir jólabaksturinn. 

Þá kíkir Magnús Hlynur á bananatré í Hafnarfirði sem reynst hefur ákaflega gjöfult og við skellum okkur til Helsinki, þar sem sett hefur verið upp sýning á verkum goðsagnarinnar Tove Jansson, skapara múmínálfanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×