Erlent

Pútín hótar af­drifa­ríkum á­rásum á Kænugarð

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sérfræðingar telja ólíklegt að Pútín láti til skarar skríða áður en Trump hefur tekið við stjórnartaumunum vestanhafs.
Sérfræðingar telja ólíklegt að Pútín láti til skarar skríða áður en Trump hefur tekið við stjórnartaumunum vestanhafs. Getty

Vladimir Pútín Rússlandsforseti hefur hótað því að nota Oreshnik-eldflaugar til að gera árásir á Kænugarð og segir afl vopnins sambærilegan við kjarnorkuvopn ef ítrekaðar árásir eru gerðar á sama skotmark.

Líkir hann afleiðingum slíkrar árásar við það sem gerist þegar loftsteinn fellur til jarðar.

„Við vitum, sögulega, hvaða lofsteinar hafa fallið hvar og hverjar afleiðingarnar voru. Stundum voru þær þannig að heilu vötnin mynduðust,“ sagði Pútín í gær.

Um er að ræða eldflaugina sem skotið var á Dnipro í síðustu viku og Pútín segir ekkert loftvarnakerfi geta grandað. 

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti hefur sakað Rússa um stigmögnun átaka síðustu daga en Rússar hafa hert bæði árásir sínar og orðræðu eftir að Vesturlönd heimiluðu Úkraínumönnum að nota vopn frá þeim gegn skotmörkum í Rússlandi.

Mykhailo Podolyak, ráðgjafi Selenskís, segir fullyrðingar Pútín um máttleysi loftvarnakerfa gegn Oreshnik-eldflaugunum hreinan tilbúning. Pútín hafi lítinn skilning á vopnum og hafi áður haldið því fram að Kinzhal-flaugar Rússa gætu komist framhjá öllum kerfum en það hefði reynst rangt.

Þá heldur Podolyak því einnig fram að Oreshnik sé í raun skáldskapur; um sé að ræða gamla breytta flaug, ekki nýtt vopn.

Pútín notaði einnig tækifærið í gær og tjáði sig um stöðu mála vestanhafs. Sagði hann Donald Trump, fyrrverandi og verðandi Bandaríkjaforseta, vel gefinn og að hann myndi finna lausn varðandi Úkraínu.

Þá sagði hann Joe Biden, fráfarandi forseta, annað hvort hafa heimilað notkun bandarískra vopna í Úkraínu til að setja Trump í betri samningsstöðu eða til að gera honum erfiðara fyrir varðandi samskiptin við Rússa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×