Hann gæti fengið ósk sína uppfyllta en nöfn þeirra Freys Alexanderssonar og Arnars Gunnlaugssonar eru þau tvö sem standa hvað mest upp úr.
Þorvaldur ræddi við Stöð 2 og Vísi eftir að KSÍ tilkynnti að Norðmaðurinn yrði ekki áfram með liðið. Þar ræddi Þorvaldur hvað lægi að baki ákvörðunar Åge, hvaða ferli færi nú í gang og hans skoðun á hvaðan næsti landsliðsþjálfari ætti að koma.
„En í mínum huga er viljum við alltaf hafa Íslendinga í þessu en við skulum skoða það, heildarmyndina,“ segir Þorvaldur í samtali við íþróttadeild.
Ef horft er til Íslendinga sem koma til greina þá standa Freyr og Arnar upp úr. Freyr, sem var á sínum tíma A-landsliðsþjálfari kvenna og síðar meir aðstoðarþjálfari Erik Hamrén með A-landslið karla, var í myndinni þegar Arnar Þór Viðarsson var ráðinn árið 2020.
„Á einhverjum tímapunkti verð ég landsliðsþjálfari Íslands … Ég hef sagt þeim áður að ég muni snúa aftur einhvern tímann, og ég hlakka til þess dags, en sá dagur er ekki núna,“ sagði Freyr í viðtali við danska miðilinn Bold á sínum tíma.
Freyr er í dag þjálfari Kortrijk sem spilar í efstu deild Belgíu. Þar áður var hann þjálfari Lyngby í Danmörku. Kom hann liðinu upp úr B-deildinni og hélt liðinu svo uppi í efstu deild á eftirminnilegan hátt. Gerði hann slíkt hið sama á fyrsta ári í Belgíu þar sem Kortrijk var með annan fótinn í B-deildinni þegar Freyr tók til starfa.
Hvað Arnar varðar þá hefur hann aðeins þjálfað Víking sem aðalþjálfari hér á landi. Hann hefur hins vegar náð eftirtektarverðum árangri og gert Víking að einu besta liði Íslandssögunnar. Ásamt því að verða Íslandsmeistari tvívegis og bikarmeistari fjórum sinnum þá stýrði Arnar lærisveinum sínum í deildarkeppni Sambandsdeildar Evrópu. Þar hafa Víkingar unnið tvo af þremur leikjum til þessa og eiga ágætis möguleika á að komast í útsláttarkeppnina.
Þó Arnar hafi aðeins þjálfað hér á landi þá býr hann yfir mikilli reynslu sem leikmaður. Ásamt því að spila 32 A-landsleiki þá spilaði hann í Hollandi, Þýskalandi, Frakklandi, Englandi og Skotlandi.
Arnar hefur áður talað um að þjálfarar þurfi að vinna sér inn að stýra íslenska A-landsliðinu og það sé ákveðin viðurkenning fyrir íslenska þjálfara að vera boðið starfið.

Hvað aðra íslenska þjálfara varðar þá var Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram í dag, einnig orðaður við starfið árið 2020. Davíð Snorri Jónasson er annað nafn en hann er í dag aðstoðarþjálfari liðsins og var áður þjálfari U-21 árs landsliðsins. Svo er Heimir Hallgrímsson að sjálfsögðu nefndur til sögunnar, hann er í dag þjálfari írska landsliðsins.
Hvað erlenda þjálfara varðar þá hafa reynslumiklir þjálfarar frá Norðurlöndum náð ágætis árangri með A-landsliðið á undanförnum árum. Hinn sænski Janne Andersson, 62 ára, er án starfs eftir að þjálfa A-landslið Svíþjóðar frá 2016-23. Sömu sögu er að segja af Kasper Hjulmand, 52 ára, en hann þjálfaði A-landslið Danmerkur frá 2020-24.
