Ungverjar, sem steinlágu gegn norsku stelpunum hans Þóris Hergeirssonar í undanúrslitum á föstudag, voru ívið betri aðilinn í fyrri hálfleik og náðu mest þriggja marka forskoti. Staðan í hálfleik var þó aðeins 13-12, Ungverjalandi í vil.
Í seinni hálfleiknum var aldrei mikill munur á liðunum en Ungverjar héldu þó áfram að leiða. Frakkar jöfnuðu hins vegar, í 23-23 og svo í 24-24 þegar innan við tvær mínútur voru eftir. Ungverjar fóru þá í langa sókn sem virtist ætla að renna út í sandinn þar til að Katrin Klujber náði með ævintýralegum hætti að koma boltanum út í horn á Viktoriu Gyori-Lukács sem skoraði úr hægra horninu.
Frakkar höfðu nægan tíma til að jafna metin úr lokasókn sinni en fengu dæmdan á sig ruðning og þar með gátu Ungverjar, eftir að hafa reyndar tekið leikhlé, fagnað ákaft sínum fyrstu verðlaunum á stórmóti í tólf ár, eða síðan liðið vann brons á EM 2012.
Klujber var valin maður leiksins en hún skoraði níu mörk og var markahæst Ungverja. Fyrr í dag voru þær Gyori-Lukács valdar í stjörnulið mótsins.
Evrópumótinu lýkur svo með úrslitaleik Noregs og Danmerkur sem hefst klukkan 17, í Vínarborg.