Norðmenn heiðra sitt besta íþróttafólk á verðlaunahófinu Idrettsgallaen í Þrándheimi 4. janúar, sama kvöld og Samtök íþróttafréttamanna heiðra besta íslenska íþróttafólkið á sínu árlega hófi.
Þórir er einn af sex kostum sem koma til greina í valinu á þjálfara ársins í Noregi, en gæti einnig unnið verðlaunin hér á landi.
Tilkynnt verður um tilnefningarnar á Íslandi á Þorláksmessu, að vanda, en kostirnir í Noregi eru:
- Siegfried Mazet / Egil Kristiansen, skíðaskotfimi
- Espen Rooth, frjálsar íþróttir
- Þórir Hergeirsson, handbolti
- Arild Monsen / Eirik Myhr Nossum, skíðaganga
- Stian Grimseth, lyftingar
- Kjetil Knutsen, fótbolti
Með Þóri sem aðalþjálfara hefur norska kvennalandsliðið í handbolta unnið ellefu verðlaun á fimmtán árum, og þetta er því alls ekki í fyrsta sinn sem Þórir er tilnefndur sem þjálfari ársins.
Hann vann verðlaunin í fyrsta og eina sinn fyrir tveimur árum, en hafði áður verið tilnefndur sex sinnum.
Þegar Þórir vann verðlaunin fyrir tveimur árum var hann, líkt og nú, nýbúinn að stýra Noregi til Evrópumeistaratitils. Í þetta sinn hefur hann einnig gert liðið að Ólympíumeistara, í París í sumar.
Frá því að Samtök íþróttafréttamanna á Íslandi fóru að velja þjálfara ársins, árið 2012, hefur Þórir hlotið nafnbótina tvisvar, fyrir árin 2021 og 2022, og alls verið meðal þriggja efstu sex sinnum.
Enginn Ödegaard á lista
Norskir fjölmiðlar fjalla um það í dag að Arsenal-maðurinn Martin Ödegaard, fyrirliði norska landsliðsins í fótbolta, sé ekki á meðal þeirra tíu sem tilnefndir eru sem íþróttakarl ársins.
Norðmenn eiga íþróttafólk í fremstu röð í mörgum greinum en Erling Haaland er eini fótboltakarlinn sem er tilnefndur og Caroline Graham Hansen eina fótboltakonan. Á meðal þeirra sem tilnefndar eru sem íþróttakona ársins eru einnig tvær úr handboltalandsliði Þóris, þær Stine Oftedal Dahmke, sem reyndar lagði skóna á hilluna eftir Ólympíumeistaratitilinn, og Henny Reistad.