Viðskipti innlent

Hærri barna­bætur og ný gjöld á nikótín­vörur á nýju ári

Kjartan Kjartansson skrifar
Neytendur nikótínpúða hafa verið með böggum hildar vegna væntanlegrar verðhækkunar á þeim með tilkomu nýs gjald á nikótínvörur.
Neytendur nikótínpúða hafa verið með böggum hildar vegna væntanlegrar verðhækkunar á þeim með tilkomu nýs gjald á nikótínvörur. Vísir/Egill

Nýtt gjald á rafrettur og nikótínpúða, hækkun barnabóta og nýtt innviðagjald á skemmtiferðaskip er á meðal helstu breytinga á sköttum og gjöldum sem taka gildi um áramótin. Breytingarnar eru almennt sagðar minni en verðbólga á árinu.

Engar breytingar verða á tekjuskattsprósentu eða hámarksútsvari sveitarfélaga á milli ára. Viðmiðunarfjárhæðir þrepamarka tekjuskatts einstaklinga hækkar um 5,8 prósent.

Tekjuskattur lögaðila lækkar um eitt prósentustig en álagningarprósentan var hækkuð tímabundið fyrir þetta tekjuár. Skatthlutfallið verður tuttugu prósent á næsta tekjuári fyrir hluta- og einkahlutafélög.

Barnabætur hækka á milli ára með hækkun grunnfjárhæða og skerðingarmarka til samræmis við þróun verðlags og launa. Þá verða barnabætur fyrirframgreiddar á fæðingarári barns frá og með næsta ári, að því er kemur fram í tilkynningu á vef stjórnarráðsins um breytingarnar.

2,25 prósentustigum minna en hækkun verðlags

Krónutölugjöld á eldsneyti, áfengi og tóbak hækka um 2,5 prósent um áramótin en verðbólga síðasta árið var 4,75 prósent. Kolefnisgjald á jarðefnaeldsneyti hækkar aftur á móti um 59 prósent. Engar breytingar eru gerðar á kílómetragjaldi sem er lagt á hreinorku- og tengiltvinnbíla. Ekkert varð úr kílómetragjaldi á jarðefnaeldsneytisknúnar bifreiðar sem til umræðu var á þingi.

Almennt vörugjald á bensíni hækkar þannig um innan við eina krónu á lítra en olíugjald um tæpar tvær krónur.

Áfengisgjald á bjór hækkar um 3,70 krónur og verður 150,85 krónur á hvern sentílítra af vínanda í lítra eftir áramót. Á léttvíni hækkar gjaldið um 3,35 krónur og verður 137,4 krónur á sentílítra. Sterkt vín hækkar um 4,55 krónur á sentílítra og verður áfengisgjaldið á það 185,95 krónur eftir breytinguna.

Tóbaksgjald á vindlinga hækkar um 15,10 krónur á stykki og á neftóbak um 0,85 krónur á gramm.

Áfengisgjald á brennt vín hækkar um rúmlega fjóra og hálfa krónu á sentílítra vínanda í hverjum lítra 1. janúar 2025.Vísir/Vilhelm

Dýrari nikótínvörur

Gjald verður nú í fyrsta skipti tekið af svonefndum nikótínvörum: rafrettum og nikótínpúðum. Neysla á þeim hefur aukist verulega, sérstaklega á meðal yngra fólks. Gjaldið nemur átta til tuttugu krónum á hvert gramm eftir styrkleika nikótíns í vörunum. 

Á rafrettuvökva verður lagt gjald frá fjörutíu og upp í sextíu krónur á hvern millilítra eftir styrk.

Virðisaukaskattur aftur á hefðbundin reiðhjól

Búast má við því að almenn reiðhjól hækki umtalsvert í verði á næsta ári. Undanfarin fimm ár hefur verið heimilt að fella niður virðisaukaskatt af ýmsum gerðum hjóla, þar á meðal hefðbundnum reiðhjólum. Sú heimild rennur út um áramótin og þá mun 24 prósent virðisaukaskattur aftur leggjast á reiðhjól.

Kaupendur rafhjóla eiga að geta sótt um styrki í gegnum Orkusjóð en enn er unnið að útfærslu þeirra styrkja.

Eftir fimm ára hlé leggst 24 prósent virðisaukaskattur aftur á sölu almennra reiðhjóla um áramótin.Vísir/Vilhelm

Þriðjungshækkun gistináttaskatts

Töluverðar breytingar verða fyrir ferðaþjónustuna þegar nýtt ár rennur upp en þá hækkar gistináttaskattur  fyrir hverja selda gistinótt um þriðjung, hvort sem er í íbúð, hótelherbergi, svefnpokaplássi eða stæði á tjaldsvæði. Á tjaldstæðum fer skatturinn úr 300 krónum í 400 en annars staðar hækkar hann úr 600 krónum í 800 krónur á hvern farþega.

Þá verður tekið upp nýtt innviðagjald sem skemmtiferðaskip í millilandasiglingum þurfa að greiða í staðinn fyrir gistináttaskattinn. Það verður 2.500 krónur á hvern farþega fyir hvern byrjaðan sólarhring sem skip dvelur innan lögsögunnar.


Tengdar fréttir

Nikó­tín­púðar gætu hækkað um 300 kall með nýju gjaldi

Nýtt gjald á nikótínpúða sem lagt er til að taki gildi á næsta ári gæti hækkað verð á hverri dós um þrjú hundruð krónur. Takmarkanir á aðgengi að nikótínvörunum eru sagðar hafa skilað litlum árangri í að draga úr neyslu barna og ungmenna á þeim.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×