Kennaraverkföll hefjast að óbreyttu laugardaginn 1. febrúar í fjórtán leikskólum og sjö grunnskólum. Á sama tíma hefst undirbúningur að verkfallsaðgerðum í framhaldsskólum.
Alger pattstaða hefur verið í kjaradeilunni. Eftir síðasta formlega fund deiluaðila, á miðvikudag í síðustu viku, sagði Ástráður ekki ástæðu til að boða til nýs fundar og hefur sagt það sama alla daga síðan. Það breyttist svo skyndilega seinni partinn í dag.
Aðalmeðferð í héraðsdómi
Aðalmeðferð í máli foreldra leikskólabarna gegn Kennarasambandi Íslands vegna verkfallsaðgerða kennara hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur klukkan 15 í dag. Um er að ræða foreldra barna á fjórum leikskólum, sem segja börnum hafa verið mismunað með hinum afmörkuðu aðgerðum en verkföll í leikskólunum voru ótímabundin á meðan þau voru tímabundin í grunn- og framhaldsskólum.