Um er að ræða 27 einstaklinga sem voru í flugvélinni og einn úr þyrlunni.
Samgönguráðherrann Sean Duffy sagði á blaðamannafundi rétt í þessu að bæði þyrlan og farþegavélin hefðu verið á hefðbundnum flugleiðum.
Búið væri að finna báðar vélarnar í vatninu og rannsókn hafin.
Þrátt fyrir orð ráðherrans þá má ráða af sérfræðingum að rannsóknin muni aðallega beinast að því hvers vegna þyrlan lenti á flugvélinni þar sem hún hafði lækkað flug fyrir lendingu.
Duffy sagði menn eðlilega gera ráð fyrir að þeir væru öruggir þegar þeir færu í loftið og að Donald Trump Bandaríkjaforseti og yfirvöld myndu gera allt í sínu valdi til að tryggja öryggi farþega.
Fram kom á blaðamannafundinum að viðbragðsaðilar hefðu verið afar fljótir að bregðast við og unnið af elju við erfiðar aðstæður í miklum kulda og vindi.
Þá var greint frá því að aðgerðir miðuðu nú að því að endurheimta lík úr vatninu, ekki væri talið líklegt að nokkur fyndist á lífi.
Reagan-flugvöllur verður opnaður aftur klukkan 16 að íslenskum tíma.