Í dag var fjallað um það að Samfylkingin, sem er nú stærsti flokkurinn á þingi, hefði óskað eftir að fá herberginu, sem er það stærsta, úthlutað til sín. Erindi þess efnis hefði borist þingflokksformanni Sjálfstæðisflokks frá skrifstofustjóra Alþingis, sem hefur litla trú á að Samfylkingin fái sínu framgengt.
Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir reglur forsætisnefndar um úthlutun þingflokksherbergja alveg skýrar. Sjálfstæðismenn þurfi ekki að láta herbergið eftir. Herbergi sem þeir hafi haft til umráða síðan árið 1941.
Gott ef stjórnin er öll í kallfæri
Guðmundur Ari Sigurjónsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, segir til skoðunar að hafa herbergi stjórnarflokkanna nálægt hvert öðru. Þá myndi hans flokkur taka herbergi Sjálfsfstæðisflokksins, sem hefur einum færri þingmenn.
Í kvöldfréttum Stöðvar 2 sagði hann hafa komið á óvart hve miklar tilfinningar væru í spilinu. Hildur sagði það skiljanlegt að yngri flokkar áttuðu sig ekki á gildi þess að halda herbergi sem hefði fylgt flokknum í 84 ár.
Skýrar reglur sem þó gætu breyst
Staðreyndin er þó sú að Samfylkingin, sem bætti við sig níu þingmönnum í síðustu kosningum, hefur sprengt af sér þingflokksherbergið sem það hafði yfir að ráða á síðasta kjörtímabili.
Hildur segir fimmtán manna þingflokk þó vel geta fundað í næst stærsta herberginu. Reglur þingsins kveði á um að ekki eigi að flytja flokka milli herbergja nema nauðsynlegt sé.
Þá segir Guðmundur Ari að vel komi til greina að breyta reglunum, kjósi Sjálfstæðismenn að túlka þær á þennan veg.
Herbergið sem Samfylkingin vill komast í, og Sjálfstæðismenn vilja allra síst yfirgefa, má sjá í sjónvarpsfréttinni í spilaranum hér að ofan.