Erlent

Skot­mark sprengingar í Moskvu her­foringi frá Austur-Úkraínu

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglumenn standa vörð fyrir utan lúxusíbúðablokkina „Rauðu seglin“ í Moskvu í morgun. Sprengja sprakk í anddyri hússins og virðist það hafa verið banatilræði gegn leiðtoga vopnaðrar sveitar í Austur-Úkraínu.
Lögreglumenn standa vörð fyrir utan lúxusíbúðablokkina „Rauðu seglin“ í Moskvu í morgun. Sprengja sprakk í anddyri hússins og virðist það hafa verið banatilræði gegn leiðtoga vopnaðrar sveitar í Austur-Úkraínu. Vísir/EPA

Rússnesk yfirvöld segja að skotmark banatilræðis í Moskvu í morgun hafi verið leiðtogi vopnaðrar sveitar sem er hliðholl Rússum í Austur-Úkraínu. Hann liggur alvarlega særður á sjúkrahúsi ásamt þremur öðrum en einn lést í sprengingu í anddyri lúxusblokkar.

Sprengjan sprakk í þann mund sem Armen Sakisjan, sem Úkraínumenn saka um að vinna með Rússum í Donetsk, gekk inn í anddyri hússins ásamt fjórum lífvörðum, að sögn rússneskra fjölmiðla. Sarkisjan er sagður þungt haldinn á sjúkrahúsi. Búið sé að fjarlægja hluta af öðrum fótlegg hans.

TASS-ríkisfréttastofan hefur eftir löggæsluyfirvöldum að morðtilræðið hafi verið þaulskipulagt. Rannsóknin beinist að því hver hafi fyrirskipað tilræðið.

Úkraínska leyniþjónustan SBU lýsti Sarkisjan sem „glæpaforingja“ í Donetsk sem hefur að stórum hluta verið á valdi Rússa frá árinu 2014, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Hann væri grunaður um að aðstoða og taka þátt í starfsemi ólöglegra vopnaðra hópa. Sarkisjan hefði stýrt vopnaðri sveit sem styddi Rússa og væri skipuð sakamönnum.

Skammt er síðan Úkraínumenn réðu Igor Kirillov, rússneskan herforingja, af dögum með sprengju fyrir utan íbúðablokk í Moskvu. Stjórnvöld í Kænugarði hafa enn ekki tjáð sig um sprenginguna í Moskvu í dag.


Tengdar fréttir

Úsbeki í haldi Rússa grunaður um drápið á Kirillov

Rússneska leyniþjónustan FSB segist hafa handtekið tuttugu og níu ára gamlan mann frá Úsbekistan grunaðan um að hafa ráðið Igor Kirillov, rússneska hershöfðingjann sem var sprengdur í loft upp í Moskvu í gærmorgun, af dögum.

Útsendarar SBU sagðir hafa ráðið herforingjann af dögum

Úkraínskir embættismenn segja að útsendarar Öryggisstofnunar Úkraínu, sem er leyniþjónsta og í daglegu tali kallast SBU, hafi ráðið rússneskan herforingja af dögum í Mosvku í morgun. Herforinginn var í gær ákærður í Úkraínu fyrir notkun efnavopna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×