Innlent

Icelandair aflýsir 38 flug­ferðum vegna veðurs

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Von er á veseni á Keflavíkurflugvelli næstu tvo daga sökum veðurs.
Von er á veseni á Keflavíkurflugvelli næstu tvo daga sökum veðurs. vísir/vilhelm

Slæmt veður sem gengur yfir landið mun hafa áhrif á flugáætlun Icelandair á morgun og fimmtudag. Meðal annars verður seinkun á að Íslendingar komist í sólina á Tenerife.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair. Flug til Evrópu í fyrramálið er á áætlun en seinkun verður á flugi til Tenerife. Flugi frá Evrópu til Íslands eftir hádegið á morgun verður hins vegar seinkað um 24 tíma. Þá verður öllu flugi sem er á áætlun til Norður-Ameríku og Evrópu síðdegis á morgun aflýst. Innanlandsflug er enn sem komið er á áætlun en mögulegt er að komi til raskana á því.

Áfram verður búist við röskunum á fimmtudaginn. Alls hefur 38 flugferðum til og frá landinu á miðvikudag og fimmtudag verið aflýst. 

„Farþegar sem áttu bókað með flugi sem nú hefur verið aflýst verða endurbókaðir og munu fá senda nýja ferðaáætlun. Vegna umfangs röskunarinnar má búast við að endurbókunarferlið taki lengri tíma en venjulega,“ segir í tilkynningu Icelandair. 

Farþegum er þökkuð þolinmæðin og bent á að fylgjast vel með þeim skilaboðum sem félagið sendir auk þess sem hægt sé að fylgjast með á vef félagsins undir bókunin mín og í Icelandair appinu. Ekki sé þörf á að hafa samband við Icelandair nema ný ferðaáætlun falli ekki að ferðalaginu.

Uppfærðar upplýsingar um breytingar á flugi má finna á heimasíðu Icelandair




Fleiri fréttir

Sjá meira


×